Hjúkrunarrými fyrir aldraða og St. Jósefsspítali í Hafnarfirði

98. fundur
Þriðjudaginn 10. mars 1992, kl. 14:02:00 (4124)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Stundum þurfa menn að segja sama hlutinn tvisvar, jafnvel þrisvar og það er sjálfsagt að gera það. B-6 álman á Borgarspítalanum lokaði vegna skorts á hjúkrunarfólki. Fyrir því liggja bréf bæði hjá landlækni og í heilbrrn. og ég á von á bréfi frá landlækni þar sem hann leggur til að ekki þurfi að manna B-6 álmuna með hjúkrunarfræðingum þó svo hún verði starfrækt áfram þannig að ég á von á því að þeim sjúklingar, sem voru á B-6 álmunni, verði vísað þangað aftur.
    Ég tók það líka fram og þakkaði hv. fyrirspyrjanda fyrir að gefa mér tækifæri til þess að upplýsa það að ég á von á því að hjúkrunarrúmum fyrir aldraða muni fjölga en ekki fækka hér á Reykjavíkursvæðinu. Og mér er sérstök ánægja að geta tekið það fram að ég á fyllilega von á því að St. Jósefsspítali í Hafnarfirði muni geta haldið uppi þeirri þjónustu við aldrað fólk sem sjúkrahúsið hefur gegnt með svo góðum hætti á undanförnum árum þannig að ég á ekki von á því að það þurfi að vísa þessu gamla fólki neitt annað en á þessar stofnanir og meira að segja á fleiri hjúkrunarrúm fyrir aldraða en voru fyrir. Og ég ítreka það að mér þykir vænt um þegar hv. þm. gefa mér kost á að koma slíkum upplýsingum á framfæri og ég ítreka þakklæti mitt til fyrirspyrjanda.