Stefna ríkisstjórnarinnar í kjaramálum

98. fundur
Þriðjudaginn 10. mars 1992, kl. 14:07:00 (4127)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Enn á ný eru það kjaramálin sem mig langar að koma að hér. Sl. vor kynnti ríkisstjórnin stefnu sína í kjaramálum sem hún kallaði sáttargjörð um sanngjörn kjör. Nú standa yfir kjarasamningar en af þeim fregnum sem borist hafa verður ekki dregin önnur ályktun en sú að hæstv. ríkisstjórn sitji með hendur í skauti og bíði þess að ASÍ og VSÍ móti stefnuna. Að minnsta kosti er ekki um neitt frumkvæði af hálfu ríkisstjórnarinnar að ræða þó að ljóst sé af allra síðustu fréttum að hún þurfi að

gera eitthvað til að samningar megi takast eftir því sem segir í Morgunblaðinu í dag. Því vil ég spyrja hæstv. forsrh. sem oddvita stærsta atvinnurekanda landsins, íslenska ríkisins, og annan aðalhöfund Viðeyjarsáttmálans þar sem þessi stefna var fram sett: Með hvaða hætti er unnið að stefnu ríkisstjórnarinnar, sáttargjörð um sanngjörn kjör? Hvað líður þeirri sáttargjörð? Hvar er unnið að henni og hvernig? Og hver er skilgreining hæstv. forsrh. á sanngjörnum kjörum í ljósi efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og þeirra fjölmörgu aðgerða sem þegar hefur verið gripið til og skerða kjör fólks í landinu?