Jöfnun á flutningskostnaði olíuvara

98. fundur
Þriðjudaginn 10. mars 1992, kl. 15:59:00 (4145)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Komið er til umræðu frv. þetta um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara sem nokkuð hefur verið í umfjöllun og fréttir höfðu borist af. Má segja að mál þetta sé í eðli sínu tvíþætt, annars vegar varðar það þær breytingar sem hafa orðið á viðskiptastöðu okkar Íslendinga gagnvart innkaupum á olíuvörum og ég hygg að um þær ákvarðanir sem teknar hafa verið á grundvelli þeirra breytinga sé ekki

mikill ágreiningur. Ljóst er að samningar okkar um innkaup á olíuvörum frá Austur-Evrópu eða fyrrum Sovétríkjum hafa runnið sitt skeið á enda vegna breytinga þar. Þeir voru börn síns tíma og þjónuðu vel viðskiptahagsmunum Íslendinga á þeim tímum þegar þeir voru gerðir og reyndar lítill vafi á því að þau viðskipti sem komust á og olíuinnkaupin voru m.a. hluti af lengst af voru báðum aðilum hagstæð.
    En nú í ljósi breyttra aðstæðna er einnig lagt hér til af hálfu hæstv. ríkisstjórnar að nokkur breyting verði á þeim ákvæðum laga sem gilt hafa um jöfnun olíuverðs í landinu eða bensínverðs. Þetta tvennt er þó í eðli sínu sitt hvort málið og ekkert endilega skylt. Að sjálfsögðu er hægt að gera breytingar sem lúta að því að gefa innkaup og þess vegna verðlagningu olíuvara frjálsa annars vegar en hins vegar að taka þennan jöfnunarþátt hvað flutningskostnaðinn snertir fyrir. Ég mun ræða þann þáttinn eingöngu og sé mig knúinn til að gera nokkrar athugasemdir og í öllu falli spyrja hæstv. viðskrh. spurninga um þá tilhögun sem hér er lögð til grundvallar.
    Ég verð að segja, herra forseti, að mér finnst vera farinn tiltölulega krókótt leið að því markmiði að tryggja jöfnuð landsmanna gagnvart þessum mikilvægu vörum sem hinir innfluttu orkugjafar eða olíuvörurnar eru. Spyrja má, ef það sjónarmið ræður ferðinni á annað borð að jafna beri aðstöðu landsmanna í þessum efnum og æskilegast sé að þessar vörur séu á sama verði um allt land, hvers vegna skrefið er þá ekki stigið til fulls. Af hverju er látið við það sitja að jafna þetta að nokkru leyti? Hæstv. viðskrh. upplýsti að allt að 60% flutningskostnaðarins verði jafnaður út, en mín fyrsta spurning er: Hvers vegna aðeins 60% ef það sjónarmið ræður ríkjum að þarna sé æskilegt að jöfnuður ríki? Hvers vegna er skrefið ekki tekið til fulls? Að sjálfsögðu er eingöngu tæknilegt útfærsluatriði að ganga þá þannig frá málum, binda þannig um hnútana að þessi jöfnuður taki til landsmanna allra, til allra staða en ekki eingöngu nokkurra meginhafna.
    Í þeim efnum sýnast í grófum dráttum vera tvær meginleiðir færar ef menn vilja taka skrefið til fulls. Annars vegar er að lögbinda að sama verð skuli vera á þessum vörum hjá hverjum og einum dreifingaraðila eða söluaðila alls staðar í landinu án tillits til þess hvar hann afhendir vöru sína. Vissulega væri hægt að undanskilja sérstaka kaupendur eins og að nokkru leyti er fjallað um í þessu frv., en það mundi þá eiga við um alla almenna viðskiptavini dreifingaraðilanna, samanber orðalag 10. gr. þar sem talað er um að við það skuli miða að auglýst verð hvers innflytjanda gildi á öllum almennum afgreiðslustöðum hans. Orðalaginu væri mjög einfalt að breyta og gera það afdráttarlaust og í staðinn fyrir segja að ,,við það skuli miða`` eins og gert er í 10. gr., þá ætti ósköp einfaldlega að vera lögbundið að sama verð skyldi gilda hjá hverjum og einum dreifingar- eða söluaðila á öllum almennum afgreiðslustöðum hans hvar sem væri í landinu. Þetta gæti þá gerst ósköp einfaldlega gegnum það að leggja þá kvöð á hvern þann sem selur þessa vöru eða dreifir henni um landið að hann undirgangist jafnframt þá skyldu að gera það á sama verði alls staðar í landinu. Jöfnunin færi þá fram í gegnum rekstur viðkomandi aðila en á því eru auðvitað ýmsir annmarkar eins og menn hafa séð, bæði fyrr og síðar eins og kom fram í máli hv. síðasta ræðumanns. Hin leiðin væri væntanlega sú, sem þetta frv. byggir á svo langt sem það nær, þ.e. að jöfnunin eigi sér stað í gegnum sjóð sem fjármagnaður sé með gjaldtöku af vörunum en að sú jöfnun og hlutverk þess sjóðs taki til landsins alls og skuli tryggja fullkominn jöfnuð í þessum efnum, ekki bara gagnvart hluta af landinu eða 60% af flutningskostnaðinum heldur taki til landsins alls.
    Ég get verið sammála hv. síðasta ræðumanni um að væntanlega sjá menn ýmis tormerki á því að fara fyrri leiðina og hneigjast til þess að leita leiða til að gera þetta gegnum sjóð af því tagi sem hefur verið við lýði og þetta frv. gerir ráð fyrir að verði áfram fyrir hendi innan tiltekinna marka.
    Ég hlýt jafnframt að benda á það, sem mér finnst mest umhugsunarefni varðandi framsetningu málsins á hinu háa Alþingi, að eins og lagatextinn sjálfur er lagður til í frv. þá yrði gengið tiltölulega skammt í jöfnunarátt í þessum efnum ef menn kysu að ganga eingöngu svo langt sem lögin ótvírætt mæla fyrir um að gert sé. Þá á ég við meginreglu 3. mgr. 1. gr. frv., en þar segir að jöfnun flutningskostnaðar samkvæmt lögum þessum nái til flutningskostnaðar frá innflutningshöfnum til annarra hafna á landinu sem jafnframt teljast aðaltollhafnir við tollafgreiðslu skipa. Síðan kemur heimildarákvæði til handa ráðherra um að láta með reglugerð þessa jöfnun ná einnig til fleiri hafna og drög að slíkri reglugerð eru birt sem fskj. með frv.
    Í öðru lagi er spurning mín til hæstv. viðskrh. hvort þær prósentutölur, sem hann fór hér með að um 60% af flutningskostnaðinum, eins og hann fellur til við dreifingu olíuvaranna í landinu, yrði jafnaður, séu á grundvelli meginákvæða 3. mgr. 1. gr. eða á grundvelli þeirrar skipunar sem reglugerðardrögin gera ráð fyrir að taki gildi. Á þessu er nokkur munur eins og ég vænti að allir hv. alþm. hafi áttað sig á og mér finnst nauðsynlegt að fá það alveg skýrt fram hér hvort hæstv. viðskrh. var að tala um það ástand sem yrði í þessum efnum þegar beitt væri þeirri tilhögun sem reglugerðin gerir ráð fyrir, því þar er gert ráð fyrir að allmargar hafnir bætist við aðaltollhafnirnar, einkum þegar gasolíudreifingin á í hlut.
    Þá er komið að þeirri spurningu sem getur verið sú þriðja: Hvers vegna er þá ekki í lögunum sjálfum gengið frá því hversu víðtæk olíuverðjöfnunin skuli vera? Hvers vegna er þar haft þrengra ákvæði sem eingöngu miðar við aðaltollhafnirnar en síðan er hv. Alþingi boðað að í reglugerð standi til að hafa framkvæmdina aðeins öðruvísi og víðtækari jöfnun á ferðinni. Nú þekkja menn muninn á reglugerð og lögum og maður hlýtur að spyrja sig að því hvað valdi því að hæstv. viðskrh. leggur það þá ekki ósköp einfaldlega í vald þingsins að fullu og öllu hversu víðtæk verðjöfnunin skuli þarna vera. Er það heppilegt að ganga frá slíkum atriðum í reglugerð sem gæti þá eftir geðþótta ráðamanna verið breytileg á mismunandi tímum? Eru einhver tæknileg rök fyrir því að binda þetta eingöngu við aðaltollhafnirnar í lögunum en reikna síðan með einhverri annarri útfærslu á þessu í framkvæmd, þó kannski breytilegri eftir efnum og aðstæðum hverju sinni eða jafnvel pólitískum viðhorfum þess sem ráðherradómi gegnir í það og það sinn og að þeim hlutum sé þá til lykta leitt með reglugerð? Hér eru auðvitað viðkvæmir hlutir á ferð sem geta varðað mjög t.d. innbyrðis samkeppnisstöðu byggðarlaga og samskipti og andrúmsloft í samskiptum nágranna og mér er stórlega til efs að það sé mjög farsælt að hafa lausung ríkjandi í þeim efnum til frambúðar litið með hvaða hætti sé að þessu staðið.
    Það vekur í fjórða lagi upp spurningar um framtíðina. Er þetta undirbúningur og aðdragandi að einhverjum víðtækari breytingum en boðaðar eru nú með þessu frv. og þeim reglugerðardrögum sem þarna fylgja? Er verið að innleiða hér mismunandi verð á þessum orkugjöfum í einhverjum áföngum, einhverjum skömmtum? Er það e.t.v. vegna þess, eins og heyrst hefur, að mönnum í stjórnarflokkunum hafi þótt bitinn fullstór eins og hann var fyrst kynntur á sl. hausti. Að mönnum hafi fundist of bratt í það farið að innleiða mismunandi verð á þessum vörum eftir landshlutum og því sé þessi leið valin, að hafa þetta dálítið opið í frv. og þá væntanlegum lagatexta? Fyrst um sinn á að róa menn með því að ganga aðeins lengra í jöfnunarátt en lögin mæla fyrir um með reglugerðartextanum. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt, herra forseti, að ræða þessa hluti hér hreint út og hafa engin undirmál í þeim efnum. Ég skora á hæstv. viðskrh. að gera okkur skýlausa grein fyrir því hvað vakir fyrir hæstv. ríkisstjórn og hæstv. viðskrh. í þessum efnum og hve lengi er þá ætlunin að láta það fyrirkomulag standa sem hér er til umræðu.
    Í fimmta lagi bendi ég á það að ákveðið misræmi mun koma upp á milli hinna einstöku orkugjafa eins og þetta er útfært á grundvelli reglugerðarinnar þar sem verðjöfnunin á gasolíu mun taka til fleiri hafna, samkvæmt reglugerðarákvæðinu, en verðjöfnun á bensíni. Það þarf e.t.v. ekki að hafa í för með sér alvarlega árekstra eða mjög óheppileg áhrif. Ég hef ekki hugleitt það mikið hvort svo verði en það vekur þó athygli mína að verðmunur á bensínvörunum milli staða gæti orðið meiri en hvað gasolíuna snertir og ég er ekki endilega viss um að það sé heppilegt. Og væntanlega getur hæstv. viðskrh. útskýrt hvað fyrir mönnum vakir í þeim efnum. Það kann að vera að mönnum hafi vegna þess hve mikilvæg gasolían er fyrir ýmsan atvinnurekstur úti um landið þótt ástæða til að verðjafna hana meira eða með víðtækari hætti en bensínvörurnar. Þar með er verið að segja að það sé í lagi að mismuna einstaklingunum meira en atvinnurekstrinum. Það er sjónarmið út af fyrir sig. Einhvern veginn á þeim brautum hlýtur hugsunin í þessu að vera úr því að menn telja þetta heppilegt fyrirkomulag. Eða hvað? Eru einhverjar tæknilegar ástæður sem liggja til grundvallar því að verðjöfnunin á gasolíunni sé höfð víðtækari en á bensínvörunum?
    Ég ætla ekki að hafa um þetta langt mál, herra forseti, en vil taka af öll tvímæli um það að ég er ekki tilbúinn að standa að afgreiðslu málsins fyrr en ég hef alveg fullnaðarvissu fyrir því að aðstöðumunur manna eftir búsetu muni ekki aukast við þessar lagabreytingar. Ég tel meira en nóg um misrétti í ýmsum greinum þótt við förum ekki bókstaflega talað í öfuga átt í þessum efnum. Því auðvitað er það þannig, hversu lítil sem breytingin verður, að þá hlýtur hún verða til öfugrar áttar. Við höfum þó þrátt fyrir allt getað bent á að á þessu sviði hafa menn búið við jafnrétti hvar sem er á landinu án tillits til búsetu og fengið þessa vöru á sama verði og aðrir. Auðvitað á það að vera þannig áfram. Það ætti að vera hlutskipti hæstv. viðskrh. ef hann vill standa undir nafni, ég tala nú ekki um eftir átökin um nafnbreytinguna á Alþfl. fyrir skömmu, að hann legði til í frumvarpsformi algjöra verðjöfnun á öðrum orkugjöfum en léti olíuvörurnar í friði með fullkomna verðjöfnun eins og verið hefur. Þvert á móti ætti hæstv. viðskrh. að vera hér að mæla fyrir frv. til laga um t.d. breytingu á orkulögum í þá veru að dreifingaraðilar raforku yrðu skyldaðir til að afhenda hana á sama heildsöluverði til notenda og smásöludreifingaraðila alls staðar í landinu. En því miður hefur hlutskipti hæstv. viðskrh. orðið annað eins og þetta mál ber með sér.
    Ég held að hægt væri að einfalda þessa hluti mjög. Menn þyrftu ekki að fara svona krókótta og hálfvolga leið að þessu marki, ekki frekar en þeir vildu. Það er ósköp einfaldlega hægt að gera örlitlar orðalagsbreytingar, t.d. á 1. og 10. gr. frv., og þar með væri málið afgreitt og í höfn með eða án sjóðs sem jafnar verð út með gjaldtöku á olíuvörum og síðan endurgreiðslu flutningskostnaðar. Það er tæknilegt atriði en menn geta kveðið með einföldum og skýrum hætti á um það í stuttum lagatexta að þessa vöru skuli verðjafna um allt land og hún skuli vera þar á sama verði. Ég er boðinn og búinn að aðstoða við að finna heppilegt orðalag og afgreiða svo frv. þannig. Það má stytta frv. stórlega og mætti komast af með held ég nokkrar línur í lagatextanum til að taka af öll tvímæli um hvernig þetta eigi að vera.
    Ég get því ekki sagt að fyrstu viðbrögð mín við þessu séu mjög góð, herra forseti, mér finnst frv. heldur hálfvelgjulegt. Þessari jafnaðarmennsku að 60% sem hæstv. viðskrh. er hér að leggja finnst mér erfitt að botna í. Er það þá orðið þannig að hæstv. viðskrh. sé orðinn 60% jafnaðarmaður, á sjó en ekki landi, og þar skuli setja mörkin við jafnaðarmennskuna, hún skuli vera 60% á sjó en engin á landi?
    Þetta er náttúrlega alveg ný út gáfa af ,,jafnaðarmennsku`` en þá nafngift er tæplega hægt að nota um hæstv. viðskrh. lengur og málatilbúnað hans hér og þaðan af síður um flokkinn sem hann og hæstv. heilbrrh. eru saman í eða voru síðast þegar ég vissi.
    Herra forseti. Ég á sæti í þeirri nefnd sem hæstv. viðskrh. hefur lagt til að fái þetta frv. til umfjöllunar og ég er að sjálfsögðu tilbúinn til að vinna þar að því að skoða málið með opnum huga og taka þátt í því að fara í gegnum þá tilhögun sem hér er lögð til og gera það fordómalaust. Ég tel hins vegar að áður en Alþingi getur afgreitt þetta mál frá sér þurfi að búa miklu betur um hnútana en hér er lagt til

og a.m.k. þarf að vera ljóst hvað fyrir mönnum vakir í þessum efnum, hver sé framtíðarstefnan sem á að byggja á í sambandi við verðjöfnun á þessum mikilvægu vörum.
    Ég legg svo áherslu á að í umræðum um þetta mál séu menn ekki að blanda saman þeim breyttu aðstæðum sem eru í okkar viðskiptaumhverfi gagnvart innflutningi og eftir atvikum ekki heldur gagnvart verðlagningu eða verðmyndun þessara vara. Það að gefa verðlagningu þeirra frjálsa er eitt, það að jafna út flutningskostnaðinn og tryggja að hann valdi ekki mismunandi vöruverði í landinu er allt annað. Það eru margar leiðir færar til að tryggja að mönnum sé ekki mismunað vegna búsetu gagnvart viðskiptum með þessar vörur, bæði það fyrirkomulag sem gilt hefur og ýmislegt annað gæti til greina komið. Aðalatriðið er að það liggi ljóst fyrir hver hinn pólitíski vilji manna í þessum efnum er, hvort það er þessi ,,60%-jafnaðarmennska`` eða ,,100%-jafnaðarmennska`` sem ég vil að sjálfsögðu framfylgja.