Jöfnun á flutningskostnaði olíuvara

98. fundur
Þriðjudaginn 10. mars 1992, kl. 16:31:00 (4147)

     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil segja nokkur orð í tilefni af því að hér er til umræðu frv. til laga um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara. Ég vil þó í upphafi minnar ræðu víkja að ræðu hv. 2. þm. Suðurl. Hann fullyrti að frv. mundi auka mjög á ójöfnuð í landinu. Ég mótmæli því. Frv. mun ekki auka á ójöfnuð í landinu hvað varðar verð á olíu. Mér er næst að halda að það hafi farið fyrir hv. 2. þm. Suðurl. eins og ritstjóra Dags á Akureyri sem skrifaði heljarmikinn leiðara um þetta frv. en hafði þá í höndunum frumdrög að frv. og öll hans skrif byggðust á misskilningi en í frumdrögunum voru hugmyndir sem ekki eru í því frv. sem hér er til umræðu. Mér er næst að halda að hv. 1. þm. Austurl. hafi einnig verið með einhver slík plögg í höndunum þegar hann undirbjó sína ræðu.
    Jöfnun á olíukostnaði er mikilvægur þáttur í okkar rekstri, bæði í atvinnurekstri og einnig í heimilisrekstri. Þess vegna var það á sínum tíma mjög merk löggjöf sem sett var 1952 um jöfnun á olíuverði í landinu. Síðan hafa orðið geysilega miklar breytingar bæði á atvinnuháttum og samgöngum þannig að sannarlega var orðin þörf á breytingum á þeirri löggjöf sem hefur verið í gildi um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara. Ég vil því þakka hæstv. viðskrh. fyrir það frv. sem hér er lagt fram og þann búning sem það er í hér þegar það er til umræðu í þinginu.
    Eins og ég gat um var mjög mikil nauðsyn orðin á því að gera breytingar á lögunum um flutningsjöfnun á olíuvörum. Það var talið að flutningur hjá ýmsum olíufélögum væri óhagkvæmur og því væri nauðsynlegt með löggjöf að þrýsta á olíufélögin að ná fram ýtrustu hagkvæmni í þessum flutningum. Ég er alveg sannfærður um það að með samkeppni á milli olíufélaganna náist mikilvæg hagkvæmni og þannig sé hagsmunum landsbyggðarinnar best borgið en ekki með því að setja í reglugerðir eða lög hvernig skuli staðið að flutningi. Ég tel að það sé best gert með því að ná ákveðinni og virkri samkeppni á milli félaganna.
    Í frv. sem hér er til umræðu er gert ráð fyrir því að fullkomin flutningsjöfnun sé á flutningum á sjó til tiltekinna hafna. Það er mjög mikilvægur þáttur og auðvitað grundvallaratriði varðandi verðlagningu á olíuvörum, að flutningur á sjó til aðalhafna sé jafnaður í gegnum flutningsjöfnunarsjóð.
    Að hinu leyti gerir frv. ráð fyrir því í 10. gr., sem er afar mikilvægt og við þingmenn Sjálfstfl. lögðum ríka áherslu á, að hvert félag hefði sama auglýsta verðið á öllum afgreiðslustöðum sínum í landinu. Með því tel ég að hagsmunir landsbyggðarinnar séu tryggðir eins og hægt er um leið og efnt er til nauðsynlegrar samkeppni á milli olíufélaganna.
    Ég tel ekki þörf á að orðlengja um frv., herra forseti. Ég styð það eins og það er, ég tel að það horfi til bóta og muni stuðla að lækkun á olíuvörum, jafnframt sem það tryggir landsbyggðinni viðunandi verðlagningu á olíuvörum. En ég tel það afar mikilvægt atriði, ekki síst gagnvart mikilvægustu atvinnuvegum okkar, útflutningsgreinunum og öðrum sem þurfa að kaupa olíuvörur í stórum stíl.