Jöfnun á flutningskostnaði olíuvara

98. fundur
Þriðjudaginn 10. mars 1992, kl. 17:26:00 (4160)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Hæstv. forseti. Hæstv. forseti hefur tekið upp þá aðferð að tilkynna nokkrum sinnum hvenær menn eigi að taka til máls svona til að reyna á taugar manna, hversu lengi þeir geti verið viðbúnir og auðvitað er þetta mjög klókt hjá hæstv. forseta.
    Hér er flutt frv. til laga um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara. Þegar maður sér frv. sem er ætlað að breyta lögum þar sem jöfnuður er þá spyr maður sjálfan sig fyrst: Er hugsanlegt að frv. sem breytir frá jöfnuði til ójöfnuðar eigi að bera það nafn að það sé frv. til laga um jöfnun? Þetta minnir mig dálítið á þá góðu bók Félagi Napóleon og þá merkilegu niðurstöðu sem félagi Napóleon komst að --- þetta var skjöldótt svín eins og menn muna. Hann komst að þeirri niðurstöðu að allir ættu að vera jafnir en aðeins mismunandi jafnir. Og ég sé það að hv. 17. þm. Reykv. hefur kynnt sér þessar bókmenntir vel. ( ÖS: Partur af fortíðinni.) Partur af fortíðinni. ( Gripið fram í: Það er svolítið annað en að vera í Alþb.)
    Mér finnst stundum eins og flutningur hæstv. viðskrh. beri keim af því að hann hafi mótast af kenningum félaga Napóleons og hann sé ekki síður skæður flytjandi mála sinna í þessum þingsal en félagi Napóleon var í sínu umhverfi að boða þær breytingar sem hann taldi nauðsynlegar til þess að fullnægja því sem hann kallaði að sjálfsögðu réttlæti. Allir eiga að vera jafnir, aðeins mismunandi jafnir. Og

það er dálítið merkilegt að lifa það að það skuli vera ráðherra úr Alþfl., ráðherra úr Jafnaðarmannaflokki Íslands, sem telji að það séu brýnustu verkefnin að flytja frv. sem þetta.
    Það er viðskiptahalli hjá Íslendingum við útlönd upp á háar fjárhæðir. Eitt af því sem stuðlaði að því að auka þennan viðskiptahalla var að við hættum að flytja út saltaða síld. Það kostaði okkur meiri ójöfnuð í viðskiptum við útlönd. Við höfum haft verulegan viðskiptahalla við allar þessar svokölluðu vinaþjóðir okkar, þessar súperþjóðir með góðu markaðina í Evrópu. Þar er viðskiptahalli við hvert einasta land. Það er vel að múhameðstrúarríkin verði sérgrein hv. 4. þm. Norðurl. e., ég skipti mér ekki af viðskiptum þar. En ég spyr aftur á móti sjálfan mig í þessari miklu draumsýn um frelsið sem menn eru að tala um hvort geti verið að fortíðarvandi núv. ríkisstjórnar sé svo stórkostlegur að Sovétríkin, sem eru nú liðin undir lok, séu enn þá sá ásteytingarsteinn að nauðsynlega þurfi að breyta lögum vegna ríkis sem líður undir lok til þess að ríkið sem liðið er undir lok skaði ekki Íslendinga. Fær það staðist að svo sé komið? Er hugsanlegt að þessu vandamáli sé svo komið að það sé rétt að taka upp á Alþingi utandagskrárumræður um ríki sem liðið er undir lok og hvort það ríki sem leið undir lok hefur skaðað okkur Íslendinga? Ef Alþingi væri sagnfræðistofnun væri þetta auðvitað fróðlegt viðfangsefni. En ef við hugum að framtíð horfum við á það að þær aðgerðir sem hér er verið að leggja til munu enn stuðla að því að færa byggð á Íslandi saman. Ég er haldinn þeirri áráttu að trúa því að það sé miklu veglegra hlutverk fyrir höfuðborg Íslands, Reykjavík, að vera höfuðborg landsins en að vera eina borg þess. Það er nefnilega sorgleg staðreynd að borgríki liðu flest undir lok ef við skoðum söguna. Þau liðu undir lok þegar þau hættu að verja sitt uppland og gerðu sér ekki grein fyrir því að styrkur þeirra fólst í því að verja upplandið.
    Mér er ljóst að sá flutningsjöfnuður sem verið hefur í landinu hefur í reynd þýtt að hærra verð hefur verið á bensíni í Reykjavík en hefði þurft að vera en lægra verð á bensíni úti á landi. Þetta er söguleg staðreynd. Þetta vita allir. Enginn veit þetta betur en hæstv. viðskrh. en hann er orðhagur maður og fer í kringum þetta af mikilli lagni. Við getum áttað okkur á því hvað gerist núna með því að skoða hvernig ástandið var áður en jöfnunin var sett á en það voru sjálfstæðismenn og framsóknarmenn sem komu þeirri jöfnun á á sínum tíma.
    Nú vil ég ögn víkja að þeirri framtíðarsýn sem tveir hv. þm. hér í salnum hafa séð fyrir sér, hv. 3. þm. Vestf. og hv. 1. þm. Vesturl. Ég trúi því að báðir hafi horft til sinna byggða og trúað því að þetta frv. tryggði jöfnuð. Í reynd væri þetta aðeins þannig að olíufélögin innbyrðis mundu sjá um jöfnunina. Í fáum orðum sagt: Af því að Esso er með miklu stærra hlutfall af viðskiptunum úti á landi en Shell þýðir þetta frv. að Esso eigi að sjá um jöfnunina í dreifbýlinu í miklu ríkari mæli en Shell. Þetta er út af fyrir sig skiljanlegt ef þetta væri svona einfalt og þeir sem hafa lært stjórnmálafræði eru náttúrlega fljótir að átta sig á því að þarna er matur á beininu. En þeir gleyma aðalatriði málsins. Það er frjálst að stofna hlutafélög í þessu landi. Þetta er frjálst land. Það er félagafrelsi í landinu. Það er ekki nokkurt vandamál, t.d. hjá olíufélagi, að reka smásölustaði úti um allt og fá sér bara heildsala. Svo hefur það verktaka sem sjá um söluna hver á sínum stað. Og í staðinn fyrir að þeir færi bensínið til þessara aðila sjái verktakarnir sjálfir um að flytja bensínið til sín. --- Og nú sé ég að hv. 17. þm. Reykv. er djúpt sokkinn í lestur. Hann vill að sjálfsögðu ekki bera ábyrgð á því að slík þróun yrði sem þarna er verið að ýja að. Hvað mundi þetta þýða í reynd? Segjum að menn leigðu eina bensínstöð í Reykjavík. Olíufélagið sem leigir hana út segði einfaldlega: Þetta var arðurinn af bensínsölunni á seinasta ári á þessum stað. Nú leigi ég ykkur stöðina á því verði. Og hæstv. viðskrh., sem er maður frjálsra viðskiptahátta og réttlætis, færi auðvitað ekki að bregða fæti fyrir það að menn gætu tekið olíustöð á leigu. Ég trúi því ekki. Það væri andstætt vestrænni hugsun. Gott og vel. Þeir sem tækju stöðina á leigu mundu segja: Einfaldasta leiðin hjá okkur til að auka arðsemi er að lækka verðið --- eins og hv. 3. þm. Reykv. sagði réttilega að menn hefðu gert hér í smásölunni í Reykjavík. Hagkaup hefði ekki lækkað verðið af góðmennsku heldur til að græða. Og hvað mundi gerast ef þeir lækkuðu verðið? Auðvitað mundu þeir fá meiri viðskipti. Við skulum gera ráð fyrir því að það sé skynsamt fólk sem hér býr, ég efa það ekki. Það mundi versla við þann sem byði lægsta verðið. Hvað mundu þá hinir aðilarnir gera á eftir? Þeir yrðu nauðugir viljugir að grípa til sömu aðgerða og fara að leigja út sínar bensínstöðvar til að vera samkeppnisfærir. Svo einfalt er þetta mál. Það skyldi þó ekki vera að þeir mætu menn, þingmennirnir sem ég gat um áðan, og sem ég efa ekki að vilji tryggja vissan jöfnuð í landinu á þessu sviði, hafi ekki horft á næsta leik á skákborðinu um olíuverðið á Íslandi. Ég held að það þurfi að horfa meira en einn leik fram í tímann. Ég held að það þurfi að horfa á marga leiki fram í tímann. Ég er sannfærður um að það sem verið er að gera hér mun leiða til þess að það verður misjafnt verð á olíuvörum á Íslandi, alveg eins og það er misjafnt verð á matvöru á Íslandi vegna þess að þar er ekkert jöfnunarkerfi í gildi nema í landbúnaðarvörum. Það er kannski ekkert skrítið þótt hæstv. viðskrh. skuli einmitt vera farinn að snúa sér sérstaklega að landbúnaðarvörum þessa stundina.
    Ég verð þess vegna að segja að það eru mér mikil vonbrigði að þeir sem snerust harkalega gegn upprunalegu frv. hæstv. viðskrh. skyldu ekki hafa áttað sig á því inn í hvaða leikfléttu þeir eru að fara. Það er gjörsamlega vonlaust að gera ráð fyrir því að nokkurt olíufélag sé svo vitlaust að það láti króa sig af með þeim hætti sem hér er verið að teikna upp mynd af. Auðvitað hljóta þau að leigja út stöðvarnar á þessu svæði og auka hagnað sinn með því að lækka þar verðið. Þau geta fengið sömu leigu, haft sömu tekjur til að standa undir jöfnuðinum með því að keppa við hina á hinum stöðunum.
    Ég minni líka á það sem hér hefur komið fram, að sumir selja olíu vissan tíma á ári þegar hagnaður er. Við þurfum ekki að fara lengra en inn í Hvalfjörð til að sjá það. Er nokkuð á móti því að menn geri það og hagi sér þannig í samræmi við það að stundum er mikil umferð og stundum lítil? Ég tel það eðlilegt í frjálsu landi. En auðvitað yrðu þeir ekki einu aðilarnir sem mundu taka þetta upp ef það kerfi sem hér er verið að tala um yrði ofan á.
    Það verður að segja eins og er það er full ástæða til að óska hæstv. viðskrh. til hamingju með þetta frv., sérstaklega til hamingju, því það minnir óneitanlega á frv. um Bifreiðaskoðun Íslands sem er eitt mesta snilldarverk hæstv. viðskrh. að koma í gegnum þingið með allri þeirri vitleysu sem varð miðað við framsöguna um málið. Hæstv. viðskrh. er fullkomlega meðvitaður um að þar snerust hlutirnir gjörsamlega við miðað við það sem boðað var. Kannski er stendur það helst í einkavæðingarmönnum dagsins í dag að það horfa allir á hvernig fór með Bifreiðaskoðun Íslands. Það horfa allir á það. Það er náttúrlega þjóðráð að selja lögreglustöðvar ef þær fá heimild til að sekta og hafa það sem eigið fé, það sér hver heilvita maður. Það er ljómandi aðferð. Mér er sagt að í sumum umdæmum sé það reglan að lögreglan fari sérstaklega og rukki inn þá daga sem á að fara að borga út kaup til að eiga fyrir útborgunum. Vissulega er hægt að hugsa sér að taka upp slíka frjálsa sölu á fyrirtækjum hér á landi eins og með Bifreiðaskoðun Íslands.
    Ég verð þess vegna að segja eins og er að mig undrar það hvað Alþingi Íslendinga ætlar að láta hæstv. viðskrh. teygja sig langt á asnaeyrunum. Mig undrar það í orðsins fyllstu merkingu. En ég get ekki annað gert en óskað hæstv. viðskrh. til hamingju með að hafa komið þessari vitleysu í gegnum ríkisstjórnina. Það er afrek út af fyrir sig.