Jöfnun á flutningskostnaði olíuvara

98. fundur
Þriðjudaginn 10. mars 1992, kl. 17:54:00 (4162)

    Virðulegi forseti. Aðeins til áréttingar vegna orða hv. 2. þm. Austurl.: Í fyrsta lagi rétt að minna á það að í frv. er gert ráð fyrir mjög verulegri jöfnun í gegnum þennan flutningsjöfnunarsjóð sem ætlunin er að setja á og í sjálfu sér tryggir allnokkra jöfnun.
    Í öðru lagi, eins og ég hef þegar rakið, er sleginn ákveðinn varnagli í 10. gr. sem á að tryggja þetta mál enn frekar. Í þriðja lagi vil ég nefna það, sem ekki hefur komið fram í þessari umræðu, að það hefur fengist nokkur reynsla af frjálsri verðlagningu á tilteknum olíuvörum, ákveðnum bensínflokkum, þ.e. 95 og 98 oktana bensíni, og niðurstaðan af því er sú að þessir bensínflokkar eru seldir við sama verði hvarvetna á landinu.