Jöfnun á flutningskostnaði olíuvara

98. fundur
Þriðjudaginn 10. mars 1992, kl. 18:37:00 (4174)


     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég ætla að hafa þetta örfá orð. Hæstv. viðskrh. ræddi um að ég hefði haft rangt fyrir mér þegar ég ræddi um að ekki væri samhengi á milli flutningsjöfnunar og afsláttar. Ég er þá eitthvað skilningssljór en í umsögn um 10. gr. stendur, með leyfi forseta:
    ,,Gert er ráð fyrir að auglýst verð hvers innflytjanda gildi á öllum afgreiðslustöðvum hans og við afgreiðslu á birgðatanka notenda er þar stunda fasta staðbundna starfsemi. Þetta ákvæði kemur ekki í veg fyrir að hann veiti einstökum kaupendum afslátt í samningum t.d. við útboð á olíukaupum eða hann krefji sérstaklega um kostnað vegna flutnings á olíuvörum t.d. til verktaka inni á hálendinu.``
    Ég held að þetta segi að afsláttur til t.d. útgerðar er ekkert útilokaður og ekkert í samhengi við flutningsjöfnun. Það er og mögulegt að taka gjald fyrir olíuvörur inni á hálendinu og auðvitað mætti finna leiðir til að það næði til bensíns einnig ef menn vildu fara þá leið. En það er náttúrlega óhæfa að ekkert sé flutningsjafnað t.d. frá Þorlákshöfn og austur á Höfn í Hornafirði. Það er ekki hægt að bjóða upp á það.
    Til þess að spara tímann, svo að ég þurfi ekki að fara upp aftur, vil ég geta þess hvort það er ekki prentvilla í frv. eða hvort ekki vanti inn stærstu höfn á Austurlandi þar sem bensín er flutt inn, Reyðarfjörð, sem aðaltollhöfn. Er það virkilega þannig að ekki eigi að verðjafna bensín þangað?