Jöfnun á flutningskostnaði olíuvara

98. fundur
Þriðjudaginn 10. mars 1992, kl. 18:46:00 (4179)

     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég held að við hæstv. viðskrh. skiljum fullkomlega hvort annað eins og við höfum raunar alltaf gert. Ég sé ekki eðlismuninn á því sem hæstv. ráðherra var að leiðrétta. Ríkið á ekki að vera að vasast í fyrirtækjunum. Þau eiga að fá að leika lausum hala en ríkið ætti kannski að jafna eitthvað kjörin. En ætli við vitum ekki öll að það er harla langt í land með það. Ríkið hefur einmitt verið að vasast í því litla sem hægt er að vasast í til þess að jafna kjör alþýðu manna og almennings í landinu með ýmsum aðferðum sem hæstv. ráðherra vill nú mestan part afleggja en þó ekki meira en svo að hann vill jafna að hluta. Það er afar erfitt að átta sig á því hvað er jöfnun að einhverjum hluta og málamiðlun í jöfnun. Ég held að hér sé fleiri spurningum ósvarað en svarað.
    Áður en ég lýk máli mínu, hæstv. forseti, vil ég lýsa ánægju minni yfir ræðum hv. 3. þm. Reykv. Þær eru að verða eins og rödd frá síðustu öld en ævinlega hef ég gaman af þeim.