Jöfnun á flutningskostnaði olíuvara

98. fundur
Þriðjudaginn 10. mars 1992, kl. 18:57:00 (4182)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það fer ekki á milli mála að mér er skylt að hæla hæstv. viðskrh. fyrir ráðsnilld sína og hyggindi því hér flutti hann afburða snjalla ræðu til að sanna fyrir þeim ungu mönnum sem hér eru horfnir úr salnum, hv. 3. þm. Vestf. Einari K. Guðfinnssyni og hv. 1. þm. Vesturl., að allt sem þeir höfðu sagt um þetta mál var hreint rugl. Það er ekki um neina málamiðlun í taflinu að ræða. Hér er hreinn sigur viðskrh. á ferðinni þannig að hinir eru heimaskítsmát svo ekki sé meira sagt. ( StG: Og farnir.) Og farnir. Og í hverju liggur þetta? Það liggur náttúrlega í þessari góðu skýringu á því að það er mjög auðvelt að hafa sama verð um land allt ef menn flytja bara olíu inn til að selja á einum stað. Hárrétt athugað hjá hæstv. viðskrh. Engar tölvur til að veita þessar upplýsingar. Hann sá þetta allt af sinni skarpskyggni.
    Það er mjög auðvelt hjá olíufélagi sem selur bara hér, þar sem 60% þjóðarinnar býr eða hvað eigum við að fara hátt, félagi Össur, hv. 17. þm. Reykv., 70%? Félag sem flytur bara inn til að selja þar sem 70% þjóðarinnar býr getur auðvita selt á lægra verði. Þetta er hárrétt niðurstaða hjá hæstv. viðskrh. Hvernig stendur á því að þeir voru ekki upplýstir um þetta, ungu mennirnir, sem voru að flytja hér sínar hugsjónaræður í dag og lásu í reglugerð? Annar las í reglugerð að hér væri Stykkishólmur skráður stórum stöfum og hinn las í reglugerð að hér væri Bolungarvík sett á blað og þá var allt í lagi. Nei, þeim hefði sko verið hollt að hlusta á þessa yfirlýsingu. En hvernig standa þá leikar? Er það þá rökfræðilega rétt að Norðfjörður fari að kaupa olíufarma, ekki frá Rússum þó að Sovétríkin séu liðin undir lok, trúlega frá Bretum og flytji beint inn? Er það framtíðarsýn? Er það ekki það fyrsta sem allir Íslendingar vita að er stærsta málið fyrir okkur til að ná niður verðinu að flytja olíuna til landsins í stórum förmum af því að þá ná þeir niður flutningskostnaðinum? Hvaða stærð af skipum hyggur hæstv. ráðherra að muni flytja olíuna á Norðfjörð, hvaða stærð er verið að tala um? Það er hægt að halda því hér fram að trillukarlarnir séu bundnari við sinn olíutank en bifreiðaeigendur við bensíntankinn. Þetta er hárrétt athugað. Þannig getur t.d. bifreiðaeigandi í Öræfasveit lagt af stað til Reykjavíkur til að kaupa bensín og keypt það hér og keyrt svo til baka. En það er mjög trúlegt að hann verði hér um bil með tóman tank þegar hann kemur á leiðarenda, mjög trúlegt. Það er nefnilega svo þrátt fyrir allt og þó að bifreiðar séu með þeim kostum að það er hægt að keyra þær hringinn í kringum landið, að þá er ekki hagkvæmt að fara mjög langan veg til bensíninnkaupa. Það veit hæstv. ráðherra líka. Hann sér grein fyrir því. Og hann sér af sínu hyggjuviti að það muni náttúrlega leiða til þess að hægt er að hafa misjafnt verð á þessum vörum á Íslandi eins og kapítalistar og aðdáendur hagkerfisins í Hong Kong telja rétt. ( Forseti: Þótt forseta sé mjög á móti skapi að trufla hv. ræðumann á þessu stigi í ræðu hans vill forseti vekja athygli á því að til stendur að fresta umræðum og slíta fundi fljótlega. Ef ræðumaður er á viðkvæmu stigi í ræðu sinni sem hann heldur yfir ráðherra nú mundi forseti gefa honum nokkrar mínútur til að ljúka máli sínu, en ef það eru þáttaskil í ræðunni mun fundi slitið og ræðunni frestað. Forseti veit að hv. þm. á ýmsar góðar ræður í miðjum klíðum og honum er kunnugt um að þingmaðurinn er vanur því að glíma við þennan vanda.) Hæstv. forseti. Ræðumaður þakkar umhyggju í sinn garð og ræðumaður er bjartsýnn að eðlisfari og gerir ekki ráð fyrir að þessi ræða verði geymd á milli ára þó frestað verði.