Afgreiðsla þingmála stjórnarandstöðunnar

99. fundur
Miðvikudaginn 11. mars 1992, kl. 13:36:00 (4183)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Vegna þess hver gangur mála hefur orðið á þingmannamálum á þessu þingi vil ég leyfa mér að vekja athygli á eftirfarandi, ekki síst með tilliti til þess að hér situr nú mikill fjöldi þingmanna í fyrsta skipti.
    Árið 1988 voru afgreidd fern lög sem stjórnarandstæðingar höfðu flutt og sex þingsályktanir eða samtals tíu mál. Árið 1989 voru samþykkt fimm lög sem stjórnarandstæðingar höfðu flutt og 13 þingsályktanir eða samtals 18 mál. Árið 1990 tvenn lög og sex þingsályktunartillögur eða samtals átta mál. En þess vegna er ég nú að segja þetta hér að einungis ein þingsályktun frá stjórnarandstæðingum hefur hlotið afgreiðslu á þessum vetri en það var mál sem afgreitt var í dæmalausri atkvæðagreiðslu sem hér mun hafa farið fram í gær. Þremur öðrum málum var vísað til ríkisstjórnar.
    Svo er að sjá að það háa Alþingi sem nú situr líti svo á að stjórnarandstaðan hafi mun minni rétt en stjórnarliðar til að fá meðferð og afgreiðslu á sínum málum. Og meginástæða þess, virðulegi forseti, að ég vek nú máls á þessu er að þolinmæði mín er þrotin varðandi mál sem ég hef hér flutt nú í fjórða sinn á hinu háa Alþingi, sem er 123. mál þingsins og er frv. til laga um embætti umboðsmanns barna. Í öll þrjú skiptin sem þetta mál hefur legið fyrir Alþingi hefur það hlotið nokkra afgreiðslu. Fyrir liggja, m.a. í þessu sama þskj. sem ég er nú að tala um, fjölmargar umsagnir þeirra aðila sem gerst skyldu þekkja til þessara mála, allar jákvæðar. Fundir hafa verið haldnir úti um allan bæ, t.d. fundur Kvenréttindafélags Íslands þar sem sátu fulltrúar allra stjórnmálaflokka og þar á meðal fulltrúi Sjálfstfl., hv. formaður allshn. þessa virðulega þings, þar sem hún gaf það í skyn að vissulega mundi þetta mál verða afgreitt þar sem augljós vilji væri fyrir því úti í þjóðfélaginu. Ég harma að hv. 6. þm. Reykv. virðist ekki vera viðstaddur, en ég hlýt að spyrja hæstv. forseta hvort þetta eigi að ganga á þennan veg að stjórnarandstöðumál liggi í nefndum óafgreidd.
    Ég bendi á að nokkuð er farið að líða á þetta þing og betra að fara að hafa hraðar hendur ef menn vilja afgreiða eitthvað af þeim mörgu ágætu málum sem stjórnarandstaðan hefur flutt. En við það verður ekki unað að stjórnarandstöðumál séu hreint og beint látin sitja á hakanum á meðan við stjórnarandstæðingar sitjum hér samviskusamlega, tökum þátt í umræðum um stjfrv. og stjtill. og reynum að vinna að þeim málum eftir bestu getu ef við getum sætt okkur við þau.
    Ég vil biðja hæstv. forseta að ræða nú alvarlega við hv. formann allshn. Ég vil helst fá svar við því hvort núverandi stjórnarflokkar eru andvígir því að stofnað verði embætti umboðsmanns barna. Fyrir liggur fjárhagsáætlun um kostnað við það sem fyrir ári síðan var milli 5 og 6 millj. Ég á ekki von á að það hafi hækkað mjög mikið þannig að hér er nú ekki verið að biðja um miklar fjárhæðir. En þetta verður auðvitað að fara að verða ljóst. Það eru margir sem hringja og spyrja: Á hverju stendur? Hver er á móti þessu? Ég vil biðja hæstv. forseta að beita sér fyrir því að þetta mál nái annaðhvort fram að ganga eða þá að svar verði gefið við því hver er því ósamþykkur.