Afgreiðsla þingmála stjórnarandstöðunnar

99. fundur
Miðvikudaginn 11. mars 1992, kl. 13:42:00 (4186)

     Guðrún Helgadóttir :

    Hæstv. forseti. Já, það liggur alveg ljóst fyrir hverjir hafa þæft og tafið þetta mál. Það er nefnilega þannig, eins og kannski hefur komið ýmsum hér á óvart, að ekki er alveg allt fengið með því að hafa meiri hluta á hinu háa Alþingi. Það er hægt að tefja mál með því að biðja um æ fleiri til viðtals, æ fleiri umsagnir og verða þess valdandi að mál nái ekki afgreiðslu fyrir þinglok. Ég get upplýst hv. þm. sem hér talaði síðast að einmitt það gerðist á síðasta þingi. Og hver olli því? Ég er ansi hrædd um að það hafi verið flokkur hv. þm.