Þjóðarbókhlaða og endurbætur menningarbygginga

99. fundur
Miðvikudaginn 11. mars 1992, kl. 13:49:00 (4192)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Mér þykir leitt til þess að vita ef hæstv. ráðherra telur sig ekki þurfa að svara

spurningum einu orði og jafnvel vera svo upptekinn við önnur störf í þingsal að hann heyri ekki spurninguna. Ég vil því endurtaka spurningarnar og fara þess á leit vinsamlegast við hæstv. ráðherra að hann gefi þau svör sem hann hefur. Það verður að virða það hafi menn ekki þær upplýsingar á takteinum sem um er beðið en lágmarkið er að menn virði fyrirspyrjendur svars. Minna er nú ekki hægt að fara fram á.
    Ég varpaði fram þeirri spurningu hvort fyrir lægi hversu miklu fé menn telja að þurfi að verja til þessara bygginga, Þjóðarbókhlöðu og annarra menningarbygginga, til þess að ljúka þeim endurbótum sem áformaðar væru. Hvað er um að ræða háa upphæð sem menn telja að þurfi að afla til þessara verkefna? Ég vakti athygli á því að nefndin sem fjallaði um málið óskaði eftir greinargerð fjmrn. um það hvernig tekjum af þessum sérstaka eignarskatti hafi verið varið og hver staða framkvæmda sé nú við þær byggingar sem fengið hafa fé af þessum skattstofni. Og ég vil ítreka spurningar mínar til hæstv. ráðherra.