Þjóðarbókhlaða og endurbætur menningarbygginga

99. fundur
Miðvikudaginn 11. mars 1992, kl. 13:54:00 (4196)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það kemur mér á óvart ef það er skoðun hæstv. fjmrh. að það sé heldur verra að þingmenn biðji um upplýsingar og það virðist sem beiðni um upplýsingar um mál sé eitthvað sem fari í taugarnar á honum. Ég efa það ekki að ráðuneytið muni svara nefndinni þegar þar að kemur en mér heyrðist á svari ráðherra að hann væri ekki búinn að því. En það breytir því ekki að þingmenn eiga fyllsta rétt á því í umræðum um mál að fá upplýsingar um þau mál og mér þykir það einfaldlega skynsamlegt að þegar menn eru með sérstakan skatt til afmarkaðra verkefna að vita hvað það eru háar fjárhæðir sem um er að ræða sem menn ætla að verja til þessara verkefna og hvernig tekjurnar koma inn og hvernig þeim hefur verið varið. Ég sé ekkert óeðlilegt við það að þingmaður biðji um þessar upplýsingar. Ég botna bara satt að segja ekki í þessum málflutningi hjá hæstv. ráðherra, að það skuli vera mönnum heldur til hnjóðs að vilja vita eitthvað um hvað menn eru að samþykkja.