Þjóðarbókhlaða og endurbætur menningarbygginga

99. fundur
Miðvikudaginn 11. mars 1992, kl. 14:09:00 (4203)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég vil reyna að gera þingheimi ljóst hvað hér er að gerast. Ég var ekki að ergja eða stríða hæstv. forseta með því að biðja um frestun á þessu máli til næsta fundar. Ástæðan er sú að ég vil fá leyfi til að skoða það örlítið lengur. Ég vil vekja á því athygli að þetta er í fyrsta skipti í þau 13 ár sem ég hef setið á þingi sem þingmanni hefur verið neitað um örlítinn frest á máli. Og ég vil spyrja hæstv. forseta, og mun gera það við annað tækifæri, hvort þetta séu nýir siðir hér á hinu háa Alþingi. Nefndin gerir í þessu tilviki í raun og veru fyrirvara um málið með því að biðja um greinargerð sem ekki er algengt við afgreiðslu nefndar um mál. Ég á ekki sæti í þessari nefnd en bað einfaldlega sem þingmaður utan nefndarinnar um að fá að skoða þetta örlítið betur. Það er tvímælalaust þinglegur réttur minn, hæstv. forseti, og ég harma að svo skuli nú vera komið fyrir Alþingi Íslendinga að réttur þingmanns sé ekki virtur. Ég greiði því ekki atkvæði.