Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

99. fundur
Miðvikudaginn 11. mars 1992, kl. 15:57:00 (4216)

     Ingi Björn Albertsson (andsvar) :
    Herra forseti. Vegna kostnaðarþátttöku ríkissjóðs við veiðar á mink þá er ég smeykur um að það gæti einhvers misskilnings hjá hæstv. ráðherra varðandi það hvort þetta skarist ekki við ráðstafanir í ríkisfjármálum fyrir árið 1992. Hann sagði hér áðan að þau lög giltu aðeins fyrir árið 1992 og kannski væri betra ef svo væri. Þar með væru ýmsar af þeim ráðagerðum og þeim aðgerðum sem til hefur verið gripið aðeins til eins árs, en svo er nú ekki. Þessi grein, sem er 33. gr. laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992, og tekur á veiðum minks stendur alveg sjálfstætt. Því er ég hræddur um að þarna sé misskilningur á ferðinni og ég hvet þann eina fulltrúa hv. umhvn. sem hér er staddur að taka þetta til endurskoðunar --- nú, það hefur fjölgað um helming og heldur betur, þá þrjá fögru fulltrúa umhvn. sem hér eru staddir --- að taka þetta mál til endurskoðunar vegna þess að það er alveg ljóst að þau lög sem við samþykktum um ráðstafanir í ríkisfjármálum gilda fyrir lengri tíma en bara fyrir árið 1992. Þarna er því misskilningur á ferðinni, virðulegi ráðherra. Ég vil ekkert fara að karpa um þetta, ég vil bara benda hv. nefndarmönnum á það að skoða þetta vel.