Auglýsingakostnaður í dagblöðum og sjónvarpi

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 10:31:00 (4218)

     Fyrirspyrjandi (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Þegar hæstv. fjmrh. svaraði fsp. á þskj. 212 kaus hann að haga svari sínu á þann veg að veita eingöngu upplýsingar um eina tölu tengda viðskiptum fjmrn. við Hvíta húsið. Af þeim upplýsingum drógu ýmsir þá ályktun að Hvíta húsið hefði sjálft fengið alla þá upphæð og af öðrum upplýsingum sem hæstv. fjmrh. veitti í svari sínu dró einn hv. þm. í umræðunum þá ályktun að Morgunblaðið hefði aðeins fengið fáein hundruð þúsunda á þessu tímabili vegna auglýsingabirtinga á vegum fjmrn. Ég taldi þess vegna nauðsynlegt að það kæmi fram hvernig sú upphæð, sem merkt var Hvíta húsinu ein og sér í upplýsingum fjmrh., hefði skipst á dagblöðin og sjónvarpsstöðvarnar tvær. Það kæmi þess vegna alveg skýrt fram hvaða upphæðir það voru sem Morgunblaðið, DV, Tíminn, Þjóðviljinn, Alþýðublaðið, Dagur, Ríkissjónvarpið og Stöð 2 fengu vegna auglýsingabirtinga á því tímabili sem um var rætt svo að a.m.k. þeir sem hafa áhuga á sannleikanum hefðu möguleika á að hafa hann að leiðarljósi.