Auglýsingakostnaður í dagblöðum og sjónvarpi

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 10:44:00 (4223)

     Fyrirspyrjandi (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Fyrst vil ég nú biðja virðulegan forseta að ræða við fjmrh. með hvaða hætti hann svarar fyrirspurnum á Alþingi. Ég bar fram fsp. og hæstv. fjmrh. svaraði henni ekki í ræðu sinni áðan. Í fsp. minni var beðið um samtölur fyrir þessa fjölmiðla. Ekkert kom fram í munnlegu svari ráðherrans um þær samtölur heldur vísaði hann bara í plagg sem dreift var á borðin og fer ekki inn í þingtíðindin. Þannig að ef menn lesa fsp. mína í þingtíðindunum og svar hæstv. fjmrh. sem hann flutti í þinginu fá menn ekkert svar við fsp. Það kann að vera ástæðan fyrir því að fjmrh. kaus að svara þessu þannig að Morgunblaðið fær 8 millj. af þessari upphæð. Einn af hv. þm. Sjálfstfl. gerði mikið mál úr því á sínum tíma, að þegar ég var fjmrh. hafi Morgunblaðið bara fengið nokkur hundruð þús. fyrir auglýsingar og það sýndi nú hvernig Ólafur Ragnar Grímsson hafði hagað sínum málum. En þessar tölur sýna það að Morgunblaðið fær um 8 millj. á þessu tímabili og skarar svo langt fram úr öðrum fjölmiðlum að þeir komast ekki í hálfkvist við það. Meira að segja Ríkissjónvarpið, sem er þó einn öflugasti fjölmiðill landsins, er með tæpar 4 millj., ef maður leggur allar tölurnar saman í fljótheitum sem hæstv. fjmrh. dreifði á borðin.
    Og vegna þess ómerkilega málflutnings sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson var með, þá er rétt að benda honum á, eins og hefur reyndar komið fram, að hlutfallstölur þessara skiptinga endurspegla mjög vel útbreiðslu blaðanna. (Gripið fram í.) Hv. þm. var að reyna að gera einhverjar pólitískar keilur úr því að auglýsingastofan hefði ákveðið að auglýsa minna í Alþýðublaðinu en Þjóðviljanum og Tímanum. En þarna kemur skýrt fram að tölurnar eru í mjög eðlilegu hlutfalli við útbreiðslu Alþýðublaðsins annars vegar og Tímans og Þjóðviljans hins vegar. Ef þingmaðurinn hefur áhuga á einhverjum flokkslegum tengslum, þá er auðvitað alveg ljóst að Alþfl., sem var eigandi Pressunnar á þessu tímabili, fékk mest af auglýsingum í sín blöð á þessu tímabili, langt umfram blöð bæði Alþb. og Framsfl. Þannig að ef einhverjir skara fram úr í þessum upplýsingum, þá eru það Morgunblaðið með 8 millj. samtals og þau blöð sem Alþfl. var eigandi að. Ég vil hins vegar segja það mjög skýrt að ég tel eðlilegt að Morgunblaðið sé hæst vegna þess að það er augljóslega áhrifaríkasti auglýsingamiðillinn fyrir þær tegundir sem hér eru lagðar fram.

    Hæstv. fjmrh. birti svo upplýsingar sem ég bað ekkert um. Það er auðvitað nokkuð nýtt að nota fyrirspurnir í þinginu til þess að birta upplýsingar sem ekki var beðið um. En ég skal ekki lasta það í sjálfu sér. Það kann að vera skýring á því hvers vegna hæstv. fjmrh. hefur tapað 2 milljörðum í virðisaukaskatti á síðustu fjórum mánuðum þessa árs. Eins og fram kemur í skýrslu fjmrn. þá hrundi innheimtan á virðisaukaskattinum á síðustu fjórum mánuðum ársins. Hæstv. fjmrh. lagði niður allt það mikla kynningar-, auglýsinga- og herferðarstarf sem unnið var í fjmrn. í minni tíð og endurspeglast m.a. í þessum tölum, til þess að tryggja innheimtu á virðisaukaskattinum. Hann sagði síðan upp sérstakri eftirlitssveit sem ríkisskattstjóraembættið var með til að tryggja innheimtuna á virðisaukaskattinum. Nokkrum mánuðum eftir að fjmrh. hefur lagt þetta niður verður niðurstaðan svo sú að innheimtan á virðisaukaskattinum hrynur um 2 milljarða.