Auglýsingakostnaður í dagblöðum og sjónvarpi

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 10:50:00 (4226)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Þær umræður eru athyglisverðar sem hérna fara fram og sérstaklega er athyglisverð ræða hv. 8. þm. Reykn., fyrrum fjmrh. þessarar þjóðar. Hann kvartaði undan því að í þessum upplýsingum kæmi fram meira en hann hefði beðið um. Reyndar var það þannig líka með svarið síðast þegar þessi mál bar hér á góma. Það komu fleiri upplýsingar fram en beðið var um og ég vona að menn þurfi ekki að harma það. Það sem er athyglisvert er að auglýsingakostnaður ráðuneytisins er líklega tífalt meiri fyrstu fjóra mánuði ársins en síðustu átta mánuði ársins. Síðan leyfir hv. þm. sér að koma upp og segja að núv. fjmrh. hafi tapað tveimur milljörðum í tekjum af virðisaukaskatti af því að hann hafi sagt upp eftirlitssveitum og af því að hann hafi ekki viljað auglýsa í blöðum og útvarpi með þeim hætti að þessir skattar hefðu náðst.
    Ég spyr hv. þm.: Meinar hann eitthvað með þessu? Veit hv. þm. ekki að hann samdi sjálfur fjárlagafrv. fyrir árið 1991 og í því frv. var gert ráð fyrir því að þessar sveitir, sem hann kallar svo, störfuðu tímabundið þannig að það var skylda að segja þeim upp og reyndar var gengið þannig frá ráðningarsamningum þeirra að þetta fólk hlaut að hætta á þeim tíma? Þau verk eru verk höfundar fjárlagafrv., þess manns sem lagði það fyrir Alþingi og fékk það samþykkt með þeim hætti. Ég er hissa á hv. þm. að leyfa sér að koma upp og segja að það sé á ábyrgð núv. fjmrh. að hafa tapað 2 milljörðum í virðisaukaskattsinnheimtunni. Við skulum ræða um það síðar en það sem hv. þm. er að gera er að víkja sér undan því sem hér verið að ræða um. Það sem hefur komið fram í þessari umræðu í dag og reyndar líka síðast þegar rætt var um þessi mál er hve stórfelldum upphæðum hann veitti til auglýsingafyrirtækis sem á sama tíma var notað til þess að afla Alþb. fylgis. Allir eru sammála um það og ég vona hv. þm. líka að þar var teflt á tæpasta vað. Um það snerist þessi umræða þá. Enn fremur um hitt hve miklar auglýsingar voru notaðar á fyrri hluta ársins    .
    Ég skal, ef hv. þm. vill, svo sannarlega láta koma fram í þskj. þessar tölur allar saman, bæði fyrra svarið og þetta. Ég get gert það í skýrslu og er sjálfsagt að verða við þeirri ósk. En ég bið hv. þm. ef hann er maður til að draga aftur þau ummæli sem hann viðhafði hér áðan, í fyrsta lagi það að kenna öðrum um eigin verk og hins vegar að halda því fram að 2 milljarða kr. minni innheimta sé í virðisaukaskatti sem hafi verið viljandi með þeim hætti gert af núv. fjmrh. Ég tel að hv. þm. yrði maður að meiri ef hann sýndi það

einu sinni í sínum ræðum á Alþingi að hann gæti viðurkennt mistök og viðurkennt að hafa stundum ekki farið þannig með sannleikann að til fyrirmyndar sé.