Auglýsingakostnaður í dagblöðum og sjónvarpi

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 11:04:00 (4233)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Mín athugasemd er nokkuð svipaðs eðlis og hv. síðasta ræðumanns. Ég vil spyrja virðulegan forseta hverjar séu hinar raunverulegu reglur um framlagningu og svar fyrirspurna. Ég vil spyrja forseta hvort ekki sé ástæða til þess að nú sé gert skýrt á hvern hátt fyrirspurnum sé svarað þegar um er að ræða munnlega fsp. Þá á að svara fyrirspurninni á þann hátt en ekki dreifa í þingsalnum ónúmeruðum plöggum af ráðherrum. Þetta er í annað skiptið, virðulegi forseti, sem þetta gerist í vetur. Ég nefni það líka, virðulegi forseti, að annar ráðherra, hæstv. utanrrh., dreifði ónúmeraðri skýrslu í fjölriti sem var beðið um. Ég held að ástæða sé til þess að forseti geri þinginu alveg ljóst á hvern hátt á að svara fyrirspurnum til ráðherra þannig að ekki komist á sú lausung að ráðherrar geti hér komið upp, sagt fátt og lítið sem kemur í þskj. en dreift síðan ómerktum og ónúmeruðum plöggum.