Skattsvik

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 11:24:00 (4245)

     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Ástæða er til þess að fagna ákvörðun hæstv. fjmrh. um að setja nefnd í að skoða framkvæmd skattalaganna vegna þess að nú erum við búin að fá allnokkra reynslu á þetta mál. Ástæða er til þess að rifja það upp m.a. að gefnu tilefni í ræðu hv. síðasta ræðumanns, að meginniðurstaðan í þeirri skattsvikanefnd sem Þröstur Ólafsson veitti forstöðu og mjög var til umræðu á árum áður, var sú að ekki væri ástæða til þess að ætla að hægt væri að bæta innheimtu skattkerfisins með því að auka á eftirlitssveitir. Meginniðurstaða nefndarinnar var einfaldlega sú að til þess að tryggja skattinnheimtuna sem best, tryggja að menn næðu út úr skattkerfinu það sem þeir ætluðu sér, væri aðalatriðið að fækka undanþágunum. Ég hygg að sú reynsla sem við fengum af virðisaukaskattskerfinu á síðasta ári sýni okkur að þetta er kjarni málsins. Sú staðreynd að innskatturinn hefur aukist hlutfallslega meira á árinu 1991 heldur en útskatturinn er undirstrikun á þessu öllu saman og sýnir okkur að aðalatriðið er að fækka undanþágunum til þess að tækifærið og tilefnið til skattsvikanna hverfi. Ég ítreka að ég tel eðlilegt að eftirlit sé sem best en það er hins vegar ekki aðalatriðið í þessu sambandi. Aðalatriðið er að fækka undanþágunum og gera skattkerfið einfalt og skilvirkt.