Skattsvik

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 11:28:00 (4248)


     Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég er satt að segja hálfhissa á þeim ummælum sem koma fram hjá ýmsum hv. þm. Alþb. Auðvitað er það svo að Alþfl. hefur gegnum tíðina, eins og hv. þm. Svavar Gestsson bendir réttilega á, haft forustu um að uppræta skattsvik. Eins og hv. þm. Svavar Gestsson benti á var það að frumkvæði núv. félmrh. sem nefndin var sett á laggirnar 1986. Það er enn að frumkvæði Alþfl. sem þessi mál eru til umræðu í dag og að frumkvæði hv. þm. Péturs Sigurðssonar verður reifuð tillaga um aðgerðir gegn skattsvikum síðar í dag. Þannig að ekkert þarf að koma honum á óvart þó Alþfl. hafi enn einu sinni frumkvæði í þessari baráttu.
    Það sem ég vildi hins vegar segja, virðulegi forseti, er að tillögur Þrastarnefndarinnar frá 1986 skiptust að meginhluta í tvennt. Í fyrsta lagi að skattalögin yrðu einfölduð og það hefur verið gert. Í öðru lagi að bókhaldslögum yrði breytt og viðurlög hert. Þar er nánast allt verkið óunnið. Það var ekki heldur byrjað á því þegar hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sat í stóli fjmrh. Þetta er auðvitað það sem þarf að gera. Það þarf að vinda sér í þetta verk og ég fagna því að fjmrh. skuli lýsa því yfir að hann ætli að setja nefnd í málið. Auðvitað hefði ég orðið miklu ánægðari ef hæstv. fyrrv. fjmrh., Ólafur Ragnar Grímsson, hefði haft tíma og séð ástæðu til þess að ganga í þetta verk. En ljóst er að stórherða þarf skattrannsóknir og skatteftirlit eins og mikil áhersla var lögð á í nefnd Þrastar Ólafssonar. Það hefur ekki verið gert með nægilega sterkum hætti. Ég er sannfærður um að það er hægt að margfalda skatteftirlit og skattrannsóknir og þegar upp verður staðið mun það ekki kosta þjóðarbúið krónu heldur sennilega skila milljörðum til þess.