Svört atvinnustarfsemi

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 11:35:00 (4251)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Fsp. mín tengist síðasta máli sem var rætt hér en í fjárlagaumræðunni fyrir jól bentum við kvennalistakonur m.a. á það að ríkissjóður ætti að taka á svokallaðri svartri atvinnustarfsemi eða dulinni efnahagsstarfsemi eða nótulausum viðskiptum eftir því hvað menn vilja kalla þetta fyrirbæri. Við töldum að þar væri að leita tekna fyrir ríkissjóð.
    Eins og fram kom í umræðunni hér áðan skipaði Albert Guðmundsson, þáv. fjmrh., nefnd á sínum tíma til þess að kanna umfang skattsvika. Nefndin skilaði ítarlegri skýrslu og m.a. kom fram í mati hennar að þessi dulda efnahagsstarfsemi eða svarta atvinnustarfsemi, eins og ég vil kalla hana, næmi 5--7% af vergri landsframleiðslu eða 2,5--3 milljörðum kr. í tekjutapi fyrir ríkissjóð. Síðan sá hópur gerði skýrslu sína hefur það gerst að virðisaukaskattskerfið var tekið upp sem menn vildu meina að mundi bæta bæði innheimtu og draga úr svartri atvinnustarfsemi og skattsvikum. En spurningin er hvort það hafi gerst í raun og veru. Að mínum dómi er nauðsynlegt að fylgjast vel með svartri atvinnustarfsemi og finna leiðir til þess að draga úr henni. Ég tel að hún sé veruleg og ég hygg að við kunnum flest dæmi um slíkt þar sem nótulaus viðskipti eiga sér stað.
    Í skýrslu nefndarinnar kom fram að þær atvinnugreinar, sem helst væri að vænta svartrar atvinnustarfsemi, væru byggingastarfsemi, persónuleg þjónustustarfsemi eins og bílaþjónustugreinar, gúmmíviðgerðir, hárgreiðsla og snyrtistofur, og síðan iðnaður, verslun, veitinga- og hótelrekstur. Þetta var niðurstaða nefndarinnar á sínum tíma og það er áreiðanlega vert að fylgjast með þessum greinum sem öðrum.
    En mín fsp. til hæstv. fjmrh. hljóðar svo:
  ,,1. Hvað áætlar fjármálaráðuneytið að miklu fé sé skotið undan skatti vegna ,,svartrar atvinnustarfsemi``:
    a. í virðisaukaskatti,
    b. í tekjuskatti,
    c. í öðru?
    2. Til hvaða ráðstafana hyggst ráðherra grípa til að koma í veg fyrir ,,svarta atvinnustarfsemi``?``
    Ég vil taka það fram að hér er um þrengra mál að ræða en það sem rætt var áðan, hér er um hluta skattsvika að ræða en eins og við vitum þá geta þau birst í ýmsu formi.