Svört atvinnustarfsemi

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 11:38:00 (4252)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda er þetta mál tengt því sem var fyrr til umræðu á þessum fundi og lýtur að svartri atvinnustarfsemi og skattsvikum. Ég vil enn á ný minna á að fyrir liggur þáltill. um málið frá hv. þm. Pétri Sigurðssyni.
    Það er ljóst að áhyggjur og ábendingar, sem koma fram um þessi mál, á að taka af fullri alvöru og auðvitað er réttmæt krafa skilvísra einstaklinga og fyrirtækja að tekið sé á skattsvikamálum af festu og hörku. Ef þetta er ekki gert er hætt við að virðing fyrir skattheimtu og skattframkvæmd hverfi en það getur aftur leitt til frekari skattsvika.
    Könnun á umfangi svartrar atvinnustarfsemi hefur ekki verið gerð nýlega né heldur lagt mat á hvert hugsanlegt tekjutap ríkissjóðs er af þeim völdum.
    Síðasta úttekt af þessu tagi var framkvæmd á árunum 1984--1985, eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda, í framhaldi af samþykkt Alþingis en þá var samþykkt þáltill. um úttekt á umfangi skattsvika. Starfshópurinn skilaði sínu áliti og niðurstaðan, eins og fram hefur komið, var að umfang dulinnar starfsemi hér á landi gæti verið á bilinu 5--7%. Ef við miðum við 6%, sem er meðaltal, svaraði þetta til um 6,5 milljarða kr. árið 1985, en það er framreiknað u.þ.b. 23 milljarðar árið 1991.
    Eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda var talið af hálfu nefndarinnar mestar líkur fyrir dulinni starfsemi og skattsvikum í byggingarstarfsemi, í persónulegri þjónustustarfsemi eins og t.d. bílaþjónustugreinum, gúmmíviðgerðum, hárgreiðslu- og snyrtistofum og loks í iðnaði, verslun, veitinga- og hótelrekstri.
    Nefndin taldi að engar óyggjandi leiðir væru til að áætla söluskattsvik. Samkvæmt einni aðferð sem lýst er í skýrslunni er gert ráð fyrir að umfang söluskattsvika hér á landi hafi verið um 11% á skiluðum söluskatti á árinu 1985 eða 167 millj. kr.

    Helstu ástæður skattsvika taldi nefndin vera í fyrsta lagi flókið skattkerfi með óljósum mörkum milli hins löglega og ólöglega. Frádráttar- og undanþáguleiðir íþyngja mjög framkvæmd skattalaga og opna margvíslegar sniðgönguleiðir.
    Í þessu sambandi ber að taka fram að skattkerfinu hefur auðvitað verið breytt frá þessum tíma. Nú er virðisaukaskattur og það á að vera auðveldara að rekja hann þar sem um er að ræða út- og innskatt. Hins vegar háir yfirvöldum að skatturinn er undanþægur að hluta sem gerir allt eftirlit erfiðara.
    Í öðru lagi var bent á að skattvitund almennings væri tvíbent og yrði óljósari eftir því sem einstök skattaleg ívilnunarákvæði einstakra hópa ykjust og skatteftirlitið versnaði. Þetta græfi undan réttlætiskennd skattgreiðenda.
    Í skýrslunni er einnig tekið fram að há skatthlutföll hafi áhrif á umfang skattsvika. Þau hvetji til þess að nýta sér sniðgöngumöguleika og það þeim mun meira sem hlutföllin eru hærri.
    Auk þess ber að nefna að eflaust á tilhneiging til lagasetningar og opinberra hafta á ákveðnum sviðum sinn þátt í örvun til skattsvika, segir enn fremur í skýrslunni.
    Í skýrslunni voru nefndar ýmsar tillögur til úrbóta. Að því er varðar skattalög og skattaframkvæmd taldi nefndin að einfalda þyrfti skattalögin, fækka undanþágum og afnema margs konar frádráttarliði. Þá þyrfti að endurskoða ákvæði um refsingu og álag. Síðan var fjallað um bókhaldslög og þau þarf að skoða á næstunni. Svo var fjallað um skatteftirlit og þá voru nefndar til sögunnar ýmis tæki sem sum hafa verið notuð og önnur í undirbúningi.
    Þar sem lítið er eftir af mínum tíma þá vil ég fá aðeins að rifja upp svar við fyrri fsp. en þar kom fram að ríkisstjórnin telur að tímabært sé að gera nýja úttekt á umfangi skattsvika. Í öðru lagi vil ég benda á að samanburður á virðisaukaskattsskilum við ársreikning allra gjaldenda stendur yfir og lýkur senn. Ég vil benda á að á síðasta ári var stofnað til nýrrar deildar hjá embætti ríkisskattstjóra sem er endurskoðunardeild atvinnurekstrarframtala. Ég vil benda á að skattrannsóknum hefur verið flýtt og það þarf að efla þær og flýta og loks, virðulegi forseti, að lögum hefur verið breytt þannig að nú er hægt að loka fyrirtækjum sem ekki nota til þess tæki að sýna tryggilega hvernig talið er fram til virðisaukaskattsins.