Svört atvinnustarfsemi

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 11:44:00 (4253)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég tek undir að það er mjög nauðsynlegt að þekkja umfang svartrar atvinnustarfsemi hér á landi. Jafnframt er mjög nauðsynlegt að grípa til þeirra aðgerða sem þarf. Það er öllum í óhag að þessi svarta atvinnustarfsemi skuli vera við lýði. Ég vil einnig vekja athygli á því að jafnframt er mjög nauðsynlegt út frá sjónarmiði þeirra launþega sem vinna svarta vinnu að stemma stigu við þessu vegna þess að um er að ræða réttlausasta og varnarlausasta hópinn á vinnumarkaðinum sem hefur ótrygg kjör, er iðulega hlunnfarinn í launagreiðslum vegna þess að engar greiðslur sem fylgja venjulegum launum eru meðtaldar í launum þeirra og atvinnuöryggið er ekki nokkurt.