Kennaranám með fjarkennslusniði

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 11:59:00 (4258)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Þær upplýsingar sem komu fram í ræðu hæstv. menntmrh. komu reyndar fram í umræðunum um daginn um Háskólann á Akureyri þar sem þessi mál bar nokkuð á góma. Ég tel mjög mikilvægt að hæstv. menntmrh. hefur gefið yfirlýsingu um það að þetta starf sem unnið var á síðustu árum, aðallega af Berit Johnsen, lektor við Kennaraháskóla Íslands, að þessu starfi verður haldið áfram og verður hafin vinna við þetta vorið 1993. Ég tel út af fyrir sig að það sé erfitt að gera ráð fyrir því að mikill fjöldi fólks útskrifist úr þessu námi, dreifðri og sveigjanlegri kennaramenntun, strax á árinu 1996, þó kann svo að fara. Ég tel að afar mikilvægt sé að þessu verði fast fylgt eftir.
    Ég vek hins vegar athygli á því, virðulegi forseti, að í svari við fsp. frá einum af þingmönnum Kvennalistans sem borin var fram fyrr í vetur um hlutfall leiðbeinenda í grunnskólum kemur fram að hlutfallið hefur ekki breyst verulega núna á þessum vetri sem er merkilegt vegna þess að kennurum við grunnskólana fjölgaði á árunum 1988--1991 um 220 talsins þannig að bersýnilegt er að það er veruleg fjölgun á fólki með kennararéttindi við störf í grunnskólunum á allra síðustu missirum.