Kennaranám með fjarkennslusniði

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 12:03:00 (4261)

     Fyrirspyrjandi (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir ):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans þar sem það kemur fram að þetta nám sem ég er að spyrja um muni hefjast vorið 1993 og stefnt að því að þeir nemendur geti útskrifast 1996. Ég dreg þó mjög í efa að það standist þar sem Kennaraháskólinn hefur áætlað að þetta fjarkennslunám muni taka 4--5 ár fyrir þá nemendur sem ætla að ljúka 90 eininga námi. Því hefði verið æskilegra að það hefði getað hafist fyrr. En samt sem áður fagna ég því að þarna skuli vera tekin ákvörðun um að þetta nám muni hefjast. Margir leiðbeinendur á landsbyggðinni hafa beðið í mörg ár eftir þessu námi og ég veit að þeir munu fagna því mjög að ákvörðun sé komin um það.