Málefni innflytjenda

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 12:16:00 (4267)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :

    Virðulegi forseti. Spurt er: ,,Hvaða vandamál hafa sprottið upp við komu hins fjölmenna og fjölbreytta hóps útlendinga sem nú er að flykkjast til landsins?``
    Samkvæmt lögum er það í verkahring Útlendingaeftirlitsins að hafa eftirlit með þeim útlendingum sem koma til landsins í atvinnuskyni. Samkvæmt upplýsingum Útlendingaeftirlitsins hefur ekki orðið vart við sérstök vandamál vegna komu útlendinga sem koma til landsins í atvinnuleit. Félmrn. annast útgáfu atvinnuleyfa og menntmrn. hefur með að gera fullorðinsfræðslu og íslenskukennslu fyrir útlendinga. Ekki er hægt að fallast á að útlendingar séu nú að flykkjast til landsins eins og fram kemur í fsp. Þeir voru á síðasta ári ámóta margir og þeir hafa verið flestir áður, en útgefin atvinnuleyfi voru á síðasta ári liðlega tvö þúsund.
    Í öðru lagi er spurt: ,,Hvernig hefur verið brugðist við þeim vandamálum?``
    Afskipti félmrn. af málefnum innflytjenda eru lögum samkvæmt einungis bundin við veitingu atvinnuleyfa og eftirlit með atvinnuþátttöku erlendra launþega. Jafnframt annast ráðuneytið norræna vinnumiðlun hér á landi.
    Mér barst árið 1989 ábending um að aðstæður kvenna frá fjarlægum menningarsvæðum hér á landi væru í nokkrum tilvikum ekki sem skyldi og óskaði ég eftir áliti Útlendingaeftirlitsins á erindum varðandi hagi austurlenskra kvenna er búa hér á landi. Í framhaldi af erindinu og að fengnum upplýsingum var ákveðið að skipa starfshóp til að fjalla um þetta mál með aðild Útlendingaeftirlitsins, menntmrn. og dómsmrn. undir forustu fulltrúa félmrn. Starfshópurinn lagði til í fyrsta lagi fræðslu um íslenskt samfélag, annars vegar með útgáfu bæklings og hins vegar með námskeiðum og í öðru lagi íslenskukennslu. Þá taldi hópurinn nauðsynlegt að aðstæður þeirra manna sem ætluðu að taka á móti konum af fjarlægum menningarsvæðum yrði kannaðar vel og þá sérstaklega ef fyrirsjáanlegt væri að konurnar kæmu með börn með sér.
    Starfshópurinn samdi bækling þar sem m.a. var fjallað um eftirfarandi:
    1. Ríkisborgararétt, dvalarleyfi, atvinnuleyfi.
    2. Réttaráhrif hjúskapar foreldra og barna, skilnað.
    3. Almannatryggingar, einkanlega sjúkratryggingar og fæðingarorlof.
    4. Heilsuvernd, þar á meðal ungbarnaeftirlit.
    5. Dagvist.
    6. Íslenska skólakerfið.
    7. Félagsmálakerfið.
    8. Skattamál.
    Bæklingurinn kom út á ensku, kínversku og tælensku og hefur verið dreift til fjöldamargra stofnana, þar á meðal allra félagsmálastofnana.
    Til að skýra nánar íslenskt þjóðfélag og fylgja bæklingnum eftir komu fram hugmyndir um námskeiðahald. Taldi starfshópurinn Rauða kross Íslands tvímælalaust best til þess fallinn að annast slíkt með styrk frá hinu opinbera. Rauði krossinn hélt þrjú námskeið ætluð innflytjendum á sl. ári en þátttakendur voru um 100 talsins.
    Starfshópurinn lagði brýna áherslu á aukna íslenskukennslu og hefur menntmrn. veitt styrk til Námsflokka Reykjavíkur og Námsflokka Fjölbrautaskóla Suðurnesja til íslenskukennslu sem að mestu leyti hefur verið fyrir konur frá Filippseyjum og Tælandi
    Loks er spurt: ,,Hvernig gætir ráðherra þess að atvinnuréttindi og félagsleg réttindi þessa fólks verði ekki fyrir borð borin?``
    Litlar upplýsingar hafa legið fyrir um samsetningu þessa hóps útlendinga sem sest hefur að á Íslandi til lengri eða skemmri tíma. Nýlokið er ítarlegri úttekt sem fram fór á vegum Alþýðusambands Íslands með styrk frá félmrn. sem tekur mið af þeim tæplega 5.000 útlendingum sem dvöldu hér á landi 1. des. 1990. 3.897 voru á aldrinum 16--70 ára og þar af voru 2.768 við störf í nóvember 1990. Langflestir starfa hjá útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækjum eða um 620 manns sem eru um 22,4% starfandi útlendinga. Við heilbrigðisþjónustu starfa 291 eða um 10,5%, við verslun starfa 272 eða 9,8%, við annan iðnað en matvælaiðnað starfa samtals 235 eða 8,5%.
    Þegar útlendingar fá atvinnuleyfi öðlast þeir lögheimili á Íslandi og ganga sjálfkrafa inn í félagsleg réttindi eins og almannatryggingar og sjúkratryggingar. Með inngöngu í stéttarfélög öðlast útlendingar sama rétt og aðrir félagsmenn, þar með til atvinnuleysisbóta. Einnig er óhætt að segja að lög um atvinnuréttindi útlendinga frá 1982 tryggi mjög vel hagsmuni útlendinga á Íslandi.
    Varðandi innflytjendur má nefna að þegar ríkisstjórn Íslands hefur tekið ákvörðun um að taka hóp flóttamanna til landsins hefur hún beðið Rauða kross Íslands að annast móttöku þeirra og aðlögun í þjóðfélaginu í um það bil eitt ár. Á árunum 1956--1989 voru þeir fjórir á ári að meðaltali. Árið 1991 og 1992 kom 61 flóttamaður, 6 komu frá Víetnam til ættingja sinna hér og 19 hafa fengið hér atvinnu- og dvalarleyfi.
    Rauði kross Íslands hefur einnig stutt flesta þessa aðila. Samkvæmt upplýsingum Rauða krossins eru vandamálin leyst jafnóðum og þau koma upp. Flóttamenn geta leitað til Rauða kross Íslands og fá þá aðstoð eftir föngum.