Málefni innflytjenda

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 12:22:00 (4269)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Það er sannarlega þörf á því að vekja máls á málefnum innflytjenda. Ég vil minna á að í umræðu í vetur um veitingu ríkisborgararéttar kom ég inn á það hversu átakanlega skorti lög um málefni innflytjenda í þessu landi og átti um það orðastað við hæstv. dómsmrh. Sannleikurinn er sá að einu lögin sem hægt er að styðjast við eru lög um Útlendingaeftirlit og við vitum nú einmitt ýmislegt um hvernig þar er tekið við fólki. En það er auðvitað ekki nokkurri siðaðri þjóð sæmandi að hafa ekki meira afgerandi lög um hvernig skuli taka við erlendu fólki sem kemur hingað til landsins. Og ég vil enn og aftur ítreka það, og treysti raunar orðum hæstv. dómsmrh. sem tók undir þá ósk mína, að sett verði lög um dvöl og móttöku erlends fólks á Íslandi.