Húsaleigubætur

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 12:40:00 (4280)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Spurt er hvað líði áformum ríkisstjórnarinnar um að koma á húsaleigubótum.
    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að húsaleigulög verði endurskoðuð, framboð aukið á leiguhúsnæði og aðstoð verði veitt til að draga úr húsnæðiskostnaði leigjenda.
    Nefnd sem skipuð var til að endurskoða lög um húsaleigusamninga lýkur störfum í dag og skilar drögum að frv. um húsaleigulög. Lög um húsaleigusamninga fjalla um samskiptaaðila leigumarkaðarins. Nefndinni var falið að endurskoða ákvæði laganna m.a. um tryggingafé, tilkynningaskyldu, sérákvæðum um leigu á atvinnuhúsnæði, um húsaleigunefndir sveitarfélaganna og úttektarmenn. Endurskoðun laga um húsaleigusamninga er mikilvægur áfangi sem getur haft áhrif á leigumarkaðinn og treyst forsendur fyrir sérstökum aðgerðum til að draga úr húsnæðiskostnaði leigjenda. Í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar var skipuð nefnd sl. haust til að semja lagafrv. um aðstoð til að draga úr húsnæðiskostnaði

leigjenda. Nefndin fékk einnig það hlutverk að afla upplýsinga um húsaleigumarkaðinn.
    Á þeim tíma sem liðinn er síðan nefndin hóf störf hefur verið unnið að öflun upplýsinga um húsaleigumarkaðinn hér á landi. Þá hefur verið aflað upplýsinga um fyrirkomulag húsaleigubóta á Norðurlöndum og árangur þeirra aðferða sem beitt hefur verið í þessu skyni. Í þessu sambandi höfum við notið góðs af norrænu samstarfi en nýlega er lokið sérstöku rannsóknarverkefni um húsaleigubætur á Norðurlöndum. Nefndin er nú að móta fyrstu drög að tillögum sínum og standa yfir viðræður við aðila vinnumarkaðarins og aðra aðila sem tengdir eru hagsmunum leigjenda. Ljóst er af úrvinnslu skattframtala þar sem athugun á húsaleigugreiðslum var gerð að framkvæmdin getur verið erfiðleikum háð þannig að húsaleigubætur skili sér til að lækka húsnæðiskostnað leigjenda.
    Ekki eru fyrir hendi nýjar og nákvæmar tölur um skiptingu húsnæðismarkaðar milli leigu- og eignahúsnæðis. Miðað við þær upplýsingar sem ég hef má áætla um 15% heimila séu í leiguhúsnæði. Fjöldi íbúða í landinu er 92.000 í dag þannig að gera má ráð fyrir um 14.000 íbúðum á leigumarkaði. Miðað við rannsóknir sem gerðar hafa verið má áætla að leigjendur hjá sveitarfélögum og félagasamtökum séu um 3% íbúða eða um 2.760 leiguíbúðir.
    Samkvæmt upplýsingum úr skattframtölum sem ég nefndi áður frá 1991 um greidda húsaleigu einstaklinga er tilgreind húsaleiga hjá 3.779 einstaklingum samtals að fjárhæð 606 millj. kr. Langstærstur hluti leigjenda eru ógiftir eða einstæðir foreldrar. Sú niðurstaða er í samræmi við niðurstöðu kannana sem gerðar hafa verið á húsnæðismarkaðinum. Hlutfallslega flestir eru einstæðir foreldrar og barnlausir einstaklingar sem búa í leiguhúsnæði.
    Varðandi upplýsingar ríkisskattstjóra er athyglisvert hve fáir telja fram leigu. Flestar athuganir gefa til kynna að um 15% fjölskyldna búa í leiguhúsnæði. Ætla má að um 14.000 íbúðir hér á landi séu leigðar út. Af því má áætla að 3 / 4 leigjenda telji ekki fram greidda húsaleigu. Til er einföld skýring á því. Leigjendur hafa engan hag af því að telja fram leiguna og fá engin hlunnindi og gagnvart skattinum skiptir það því engu máli fyrir leigjendur. Leigusali þarf hins vegar að gera rekstrarreikning fyrir leiguíbúðina til að þurfa ekki að borga skatta af allri leigufjárhæðinni.
    Ég tel að þessar upplýsingar sýni að mjög vel þurfi að vanda til þessa verks til að þær aðgerðir sem til verður gripið skili sér til þeirra sem þess er ætlað. Við athugun á því hvaða kostir koma til álita til að draga úr húsnæðiskostnaði leigjenda virðast einkum tveir kostir koma til álita. Annars vegar er um að ræða að ríkisvaldið greiði sérstakar húsaleigubætur með áþekkum hætti og vaxtabætur eða barnabætur eru nú, þ.e. í gegnum skattkerfið. Hins vegar væri hægt að fela sveitarfélögunum framkvæmd málsins með tilliti til þess að þar er reynsla og þekking fyrir hendi hvað varðar greiðslur húsaleigustyrkja innan félagsþjónustu sveitarfélaga. Sú leið gæti falið í sér að fjárframlög ríkissjóðs vegna lækkunar á húsnæðiskostnaði leigjenda yrði hluti af ríkisframlagi til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem skiptir því fjármagni milli sveitarfélaganna eftir tilteknum reglum.
    Nauðsynlegt er að undirbúa vel þessar aðgerðir til að jafna húsnæðiskostnað leigjenda eins og ég greindi áður. Upplýsingar í skattframtölum um leigufjárhæð sem gefin er um greidda húsaleigu eru mjög ótrúverðugar. Meðalleigan er rúmlega 14.000 kr. í Reykjavík en landsmeðaltal er aðeins lægra eða um 13.500 kr.
    Ég legg ríka áherslu á að laga það misrétti sem nú ríkir annars vegar milli þeirra sem búa í eigin húsnæði og hins vegar leigjenda hvað varðar aðgerðir ríkisvaldsins til að lækka húsnæðiskostnað. Húsaleigubætur til leigjenda eru mikið réttlætismál og sérstaklega mikið hagsmunamál fjölda láglaunafólks sem á ekki aðra kosti en að leigja húsnæði í lengri eða skemmri tíma. Ég geri ráð fyrir að hægt verði að koma á aðgerðum til að lækka húsnæðiskostnað leigjenda áður en langt um líður enda kveðið á um það í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar að til aðgerða verði gripið á þessu ári.