Húsaleigubætur

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 12:46:00 (4281)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda að hreyfa þessu máli en lýsi að sama skapi yfir miklum vonbrigðum með svör hæstv. félmrh. Þetta var óskaplega dapurleg ræða sem hér var flutt. Með öðrum orðum er ekki hægt að gefa eitt einasta atriði upp í svari ráðherrans sem hönd væri á festandi í þessum efnum enda þótt það standi skýrum orðum í stjórnarsáttmálanum og er eitt af því fáa sem sagt er sæmilega beinum orðum þar að á þessu yfirstandandi ári eigi að gera ráðstafanir til að lækka kostnað leigjenda. Þetta er búið að vera til skoðunar í háa herrans tíð í félmrn. Í öllum þeim nefndum á undanförnum árum sem ég hef tekið þátt í í tíð hæstv. núv. félmrh., sem er nú senn orðinn fimm ára í embætti, hefur þetta mál verið til skoðunar. Samt kemur hæstv. félmrh. nú og svarar því til að það þurfi að undirbúa þetta geysilega vandlega og það taki mikinn tíma. Ég verð að segja að þetta er dapurlegt og ég held að hæstv. félmrh. verði að reka af sér slyðruorðið í þessum efnum ef ekki á að fara illa gagnvart þeim væntingum, fyrirheitum og beinum loforðum sem þessum hópi í þjóðfélaginu hafa verið gefin á undanförnum missirum, þar á meðal í stjórnarsáttmálanum sjálfum, hinni hvítu bók. Þetta var heldur dapurlegt og ég skora á hæstv. félmrh. að reyna að gera betur.