Húsaleigubætur

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 12:48:00 (4282)

     Kristinn H. Gunnarsson :

    Virðulegi forseti. Um nokkra hríð hefur verið vel ljóst hvaða áherslur Alþfl. hefur haft í þessu máli og hann hefur haft nokkuð stífar yfirlýsingar uppi um það. Í stjórnarsáttmálanum eru mjög ákveðin ákvæði um hvað beri að gera í þessu máli þannig að það voru satt að segja mikil vonbrigði að hlýða á ræðu hæstv. ráðherra og er greinilegt að stjórnarflokkarnir eru í verulegri beyglu með þetta mál og komast hvorki aftur á bak né áfram. Þeir eru að reyna að smeygja sér undan þessu loforði. Í stað þess að segja að þetta skuli gert þá segja menn að það þurfi setja upp nefnd, það þarf að kanna þetta og þetta er flókið og þetta er svona og það eru ýmsir vankantar á þessu og við þurfum að skoða það betur. Þetta eru skilaboð ríkisstjórnarinnar til leigjenda á markaðnum. Svo segja menn: Við ætlum samt að gera eitthvað á þessu ári leigjendum til hagsbóta. En enginn veit hvað það er. Hitt vita menn að áform ríkisstjórnarinnar eru þau að skerða kjör leigjenda bótalaust með vaxtahækkun.