Losun eiturefna í norðanvert Atlantshaf

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 13:22:00 (4299)

     Össur Skarphéðinsson :
    Virðulegi forseti. Þessi fsp. hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur er sannarlega tímabær og afar þarft að hún kemur hér fram. Auðvitað er staðreynd að við stöndum sem þjóð í því að selja vöru ekki hvað síst út á það að hún kemur úr tiltölulega ómenguðu umhverfi. Þess vegna er mjög nauðsynlegt að allar upplýsingar um mögulega mengun í norðurhöfum og sérstaklega norðanverðu Atlantshafi liggi fyrir. Því miður er það svo að stöðugt berast fregnir sem eru vægast sagt válegar. Í viðbót við þær upplýsingar sem hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir drap á hér áðan liggur líka fyrir að geislavirkni í Norðurhöfum er núna fjórfalt meiri en geislavirkni til að mynda í Miðjarðarhafi og í innhöfum Mið-Evrópu. Það er raunar vitað og hefur nýlega komið fram á ráðstefnu sem haldin var í Tromsö að geislamengun í norðurhöfum er miklu meiri en sérfræðingar hafa talið fram á síðustu tíma. Ástæðan er ekki síst sú að í Úralfjöllum, nánar tiltekið í Tsjeljabinsk, hefur verið miðstöð kjarnorkuvorpnaiðnaðar Sovétríkjanna og þar hefur kjarnorkuúrgangi verið kastað beint í fljótið. Ég tel að það sé afar nauðsynlegt að umhvrh. afli sér líka upplýsinga og hafi frumkvæði að því að Norðurlöndin afli sér upplýsinga um það í hvaða mæli þetta hefur verið stundað og hvort einhverjar líkur séu á því að svo sé enn þá.