Umhverfisslys

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 13:32:00 (4303)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir hefur spurt: Hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar til að bregðast við umhverfisslysum við strendur landsins í framhaldi af atburðunum sem gerðust á Ströndum snemmsumars í fyrra? Og voru raunar eins og hún réttilega rakti af náttúrulegum orsökum þó að ekki hafi tekist að skýra hvers vegna. Eftir allmiklar, nákvæmar, ítarlegar og töluvert dýrar rannsóknir var ljóst hvað um var að ræða, þ.e. dauða rauðátu. Þær upplýsingar lágu ekki fyrir fyrr en að loknum mjög ítarlegum rannsóknum og tóku sinn tíma. Í júlímánuði sl. tók ég þá ákvörðun að skipa sérstaka nefnd til að fjalla um viðbrögð við mengunaróhöppum í sjó hér við land. Í henni eiga sæti Davíð Egilsson, deildarstjóri mengunarvarnasviðs Siglingamálastofnunar, Jón Ólafsson, haffræðingur á Hafrannsóknastofnun, Sigurður Magnússon, forstöðumaður Geislavarna ríkisins, Ævar Petersen, deildarstjóri í Náttúrufræðistofnun Íslands, og Jón Bragi Bjarnason prófessor sem er formaður nefndarinnar. Í erindisbréfi nefndarinnar segir m.a.:
    ,,Umhverfisráðuneytið ákvað fyrir nokkru að skipa nefnd sérfróðra manna til að kanna hvernig haga skuli rannsókn á lífríki þegar mengunaróhöpp, bráðamengun, verða í sjó hér við land.`` Verkefni nefndarinnar eru síðan talin upp og þau eru þessi:
    1. Að koma saman þegar meiri háttar mengunaróhöpp verða eða hætta er á slíku, meta mengunarhættu, skipuleggja rannsóknir á lífríki og leiðbeina um viðbrögð og samræma aðgerðir einstakra stofnana.
    2. Að meta árangur aðgerða sem gripið er til skv. 1. tölul. að þeim loknum.
    3. Að gera tillögur til umhvrh. um sérstakar úrbætur og aðgerðir til að mæta umhverfisóhöppum í framtíðinni eftir því sem nefndin telur nauðsynlegt.
    4. Að sinna öðrum verkefnum sem ráðherra ákveður.
    Þetta er sem sagt það sem gert hefur verið og er svar við fyrri lið fsp.
    Varðandi seinni liðinn verð ég að játa að ég átti svolítið erfitt með að skilja eða skilgreina hvað átt væri við með orðinu ,,náttúruvarnakerfi``, en hv. þm. hefur nú skýrt það að nokkru. Ég verð að svara því á þann veg að ekki hefur verið rætt um að setja slíkt náttúruvarnakerfi á fót. Það er í verkahring þeirrar nefndar sem ég gerði grein fyrir áðan. Gera á tillögur um slíkt ef það þykir rétt eða æskilegt.
    Það eru mjög margar stofnanir sem hafa með málefni að gera sem snerta umhverfisslys, hver á sínu sviði. Annars vegar er um að ræða rannsóknir, hins vegar skipulagning og framkvæmd slíkra aðgerða. Meðal þeirra stofnana sem ég gæti nefnt og koma þar við sögu eru Hollustuvernd ríkisins, heilbrigðisnefndir, Náttúruverndarráð, mengunarvarnir Siglingamálastofnunar, Brunamálastofnun ríkisins, slökkvilið sveitarfélaga, Geislavarnir ríkisins og fleiri aðilar. E.t.v. má segja að almannavarnaráð gegni hlutverki sem

samræmingaraðili á þessu sviði þó ekki sé beinlínis lagabókstafur fyrir því nema að því er snertir starfsemi sumra stofnana. En skipan þeirrar nefndar sem ég greindi frá er liður í þeirri viðleitni að bæta viðbúnað hér til þess að bregðast við óhöppum og slysum af þessu tagi. Í því sambandi get ég líka nefnt að þjóðirnar á norðurslóðum, Norðurlöndin fimm, Bandaríkin, Kanada og þáverandi Sovétríki gerðu með sér samkomulag á sl. sumri um aukna mengunarvöktun á norðurslóðum og ráðstafanir til þess að bregðast við umhverfisslysum þar. Þau mál eru í undirbúningi. Loks get ég nefnt að í fjárlögum yfirstandandi árs er fjárveiting sem er fyrsta skrefið til þess að bæta mengunarvarnabúnað í höfnum og er verið að vinna að því. Með þeim fjárveitingum tekur tvö eða þrjú ár að koma upp þeim búnaði í helstu höfnum landsins svo viðunandi sé. Ég vona að fsp. hv. þm. sé svarað.