Endurskoðun laga um stjórn fiskveiða

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 13:48:00 (4308)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Rétt er að vekja athygli á því að samkvæmt bráðabirgðaákvæði laga um stjórn fiskveiða ber sjútvrh. að láta endurskoða lögin fyrir árslok í samráði við sjávarútvegsnefndir Alþingis og hagsmunaaðila. Ráðherra hefur valið málinu allt annan farveg, tekið það inn í þröngan hóp trúnaðarmanna stjórnarliðsins og er í raun að brjóta lög. Ráðherra virðir lagafyrirmæli að vettugi um það hvernig eigi að standa að endurskoðun laganna. Það er yfirlýsing ráðherrans og stjórnarflokkanna um að þeir muni ekki leitast við að ná fram samstöðu um stjórn fiskveiða á komandi árum. Þeir ætla sér að ráða þessu máli einir til lykta. Það er hin stóra breyting sem orðið hefur í þessu máli frá því sem var þegar fyrri ríkisstjórn sat.
    Ég vil að lokum, virðulegi forseti, benda á að þau orð hæstv. ráðherra um óhjákvæmilegar skipulagsbreytingar í sjávarútvegi hljóta að kalla á að ráðherrann tali skýrt. Er hann að taka undir sjónarmið formanns síns flokks um að ákveðnum byggðarlögum sé ofaukið á landakorti Íslands?