Endurskoðun laga um stjórn fiskveiða

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 13:52:00 (4311)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Það er alveg skýrt ákvæði í lögum að það á að endurskoða fiskveiðistefnuna fyrir lok þessa árs. Og það á að gera í samráði við hagsmunaaðila og sjávarútvegsnefnd. Nú segir hæstv. sjútvrh. að hann eigi ekki von á því að þessi tvíhöfða nefnd ríkisstjórnarinnar skili tillögum fyrr en við lok ársins. Þá er enginn tími orðinn eftir til að endurskoða stefnuna með nýrri löggjöf á Alþingi hvað þá heldur að hafa samráð við hagsmunaaðila um málið. Ef þetta á að geta gengið fram með eðlilegum hætti á þessu ári svo lögin verði ekki brotin er auðvitað alveg ljóst að nefndin verður að skila áliti og tillögum í síðasta lagi í september eða október, það allra síðasta.
    Hitt var svo mjög merkilegt að hæstv. sjútvrh. skyldi lýsa því yfir að þessi nefnd eigi ekki að koma með neinar tillögur í vanda sjávarútvegsins sem snerta meðferð efnahagsmála. Það verður ekki hægt að skilja þessi orð á annan veg en að hæstv. sjútvrh. Þorsteinn Pálsson sé þar með að skrifa upp á þær tillögur og hugmyndir sem aðstoðarmaður utanrrh., Þröstur Ólafsson, hefur lagt fram upp á síðkastið og fer maður þá kannski að skilja hvers vegna hinn formaður nefndarinnar, Magnús Gunnarsson, hefur ekki sagt eitt einasta orð í þessari umræðu.