Endurskoðun laga um stjórn fiskveiða

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 14:18:00 (4323)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (um þingsköp) :
    Frú forseti. Mér finnst mjög óviðeigandi að hv. 8. þm. Reykn. sé að víkja orðum, með þeim hætti sem hann gerði, að forseta Alþingis sem réttilega vakti athygli þingmannsins á ákvæðum þingskapa um þetta efni. Auðvitað er það eðlilegt, ef hv. þingmaður og aðrir þingmenn óska eftir að fá um þetta skýrslu, að þeir nýti sér ákvæði þingskapa í því efni. Ráðherrar meta það svo sjálfir hver fyrir sig hvort þeir hafa frumkvæði að því að flytja skýrslur. En það er alveg út í bláinn og reyndar mjög á svig við þingsköp að standa upp og tala í drjúga stund fram og til baka í kjölfar fyrirspurnatíma sem hér fór fram. Hv. þm. veit að bæði fyrirspyrjanda og þeim ráðherra sem í hlut á eru settar mjög þröngar skorður að efna til umræðna undir slíkum kringumstæðum. En hv. þm. kom hér, talaði í drjúgan tíma um viðfangsefnið undir þingskapaformi og kom síðan fram með þessa ályktun. Það var fullkomlega eðlilegt af forseta að koma með þessa ábendingu og mjög óviðeigandi af hv. þm. að víkja í ávítunartón að forseta með þeim hætti sem hann gerði.