Endurskoðun laga um stjórn fiskveiða

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 14:23:00 (4326)

     Svavar Gestsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst minna á það að sú sögulega yfirlýsing um Þröst Ólafsson sem fram kom áðan hjá hæstv. sjútvrh. í lok ræðu hans, eftir að hv. 8. þm. Reykn. hafði í raun og veru talað sig dauðan í hinu sérstakra dagskrárefni, þannig að það var útilokað annað en að víkja að því máli í athugasemd hans áðan um gæslu þingskapa.
    Þetta var auðvitað mjög söguleg yfirlýsing, satt að segja, þegar hæstv. sjútvrh. landsins lýsir því yfir að annar af nefndarformönnunum sé fullkomlega ómarktækur í þessu efni. Hitt er auðvitað sérstakt umhugsunarefni, hvernig hv. stjórnarliðar eru farnir að haga málum sínum héðan úr þessum ræðustól og úr forsetastólnum. Það er auðvitað afar sérkennilegt þegar hæstv. forseti Alþingis er farinn að lýsa því yfir að eitthvað sé rangt af því sem hv. þm. segja hér úr þessum ræðustól af því hvernig þeir nálgast mál. Þar var ekki um efnislegt mat forsetans að ræða heldur almennt mat á því hvernig hv. 8. þm. Reykn. hélt á máli sínu. Það auðvitað gengur ekki að forseti Alþingis kveði upp slíka dóma héðan úr þessum stól. Það er auðvitað mjög sérkennilegt að upplifa það að hæstv. ráðherrar, eins og hæstv. sjútvrh. núna, hlaupi undir bagga með hæstv. forseta með þeim hætti sem hann gerði. Það er afar sérkennilegt. Þó að hæstv. forseti og hæstv. ráðherrar kjósi að kenna stjórnarandstöðunni um hvaðeina sem aflaga fer varðandi stjórn þingsins þá held ég að það sé óhjákvæmilegt að segja nú á þessari stundu að það sé rétt að hver og einn líti í eigin barm, einnig stjórnarmeirihlutinn.