Forsjárdeilur

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 14:40:00 (4333)


     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Á þeim tíma sem til stefnu hefur verið hefur aðeins unnist tími til að fara yfir þrjú ár að því er varðar upplýsingar um fjölda mála og afgreidd mál í sifjadeild dómsmrn.
    Svar við 1. lið fsp. er þetta: Á árinu 1989 bárust ráðuneytinu 90 forsjármál. Árið 1990 85 mál og árið 1991 80 forsjármál. Frá 1. jan. 1992 til 1. mars hafa borist 11 forsjármál. Á árinu 1989 gengu 24 úrskurðir í forsjármálum. Árið 1990 23 og árið 1991 24 úrskurðir. Frá 1. jan. 1992 til og með 2. mars 1992 hafa gengið tveir úrskurðir í forsjármálum. Þann 1. mars 1992 var 21 forsjármál til sáttaumleitana á frumstigi í ráðuneytinu og 1. mars var fjöldi forsjármála til umsagna hjá barnaverndaryfirvöldum samtals 29. Sama dag voru 9 mál á úrskurðarstigi í ráðuneytinu. Mismunur á fjölda innkominna forsjármála í ráðuneytinu frá 1. jan. 1989 til 1. mars 1992 og fjölda þeirra mála er úrskurðuð hafa verið á sama tíma eða eru til umsagnar hjá barnaverndaryfirvöldum eða til meðferðar í ráðuneytinu eru því 163 mál sem tekist hefur að ná sáttum í eða hafa fallið niður vegna þess að foreldrar hafa tekið upp sambúð á ný. Þar er um tiltölulega fá mál að ræða. Af þessu má sjá að í verulegum hluta forsjármála hefur niðurstaða fengist með sáttum og er það verulegt ánægjuefni.
    Að því er varðar 2. lið fsp. er það að segja að því miður er ekki unnt að svara honum nákvæmlega að svo stöddu þar sem skráning á afgreiðslutíma forsjármála liggur ekki fyrir og ljóst er að úrvinnsla svara við þessum lið fsp. krefst lengri tíma. Þetta stendur þó til bóta með tölvuskráningu mála í ráðuneytinu en hún hófst í ágúst 1990. Það er þó ljóst að verulegur munur er á afgreiðslutíma forsjármála og ræðst hann fyrst og fremst af því hve lengi þessi mál eru til umfjöllunar hjá barnaverndaryfirvöldum. Lokaafgreiðsla mála í ráðuneytinu sjálfu tekur yfirleitt fáar vikur eftir að umsagnir barnaverndarnefnda hafa borist. Heildarmeðferð forsjármála getur tekið örfáa mánuði og einnig getur hún varað á annað ár þegar um erfið og umfangsmikil mál er að tefla, sem lengi eru til umsagnar hjá barnaverndarnefndum.
    Vegna 3. liðar í fsp. er það að segja að það eru löglærðir starfsmenn ráðuneytisins sem flestir hafa dómarahæfi sem leggja mat á forsjármál á grundvelli þeirra gagna sem fyrir liggja og í langflestum tilvikum eftir að hafa rætt við málsaðila. Í flestum málum er um samráð þriggja eða fleiri lögfræðinga að ræða og má því að nokkru leyti líkja mati á forsjármálum við mat fjölskipaðs dóms.
    Að því er varðar 4. lið fsp. verður honum að mínu mati best svarað með því að vísa beint til orða umboðsmanns Alþingis er hann lét falla í blaðaviðtali við Morgunblaðið, 25. mars 1990, en þar sagði umboðsmaður svo, með leyfi forseta: ,,Yfirleitt hafa stjórnvöld tekið tillit til aðhugasemda minna og orðið við tilmælum mínum. Dómsmrn. er dæmi þess. Að tilmælum mínum rökstyður ráðuneytið nú niðurstöður mínar um skipan forsjár barna í tilefni af skilnaði foreldra og hefur rýmkað aðgang foreldra að gögnum slíkra mála. Af hálfu dómsmrn. er vandað til meðferðar þessara mála.``
    Ég tel rétt að fram komi að frá stofnun embættis umboðsmanns Alþingis hafa ráðuneytinu borist níu erindi umboðsmanns vegna kvartana málsaðila yfir meðferð ráðuneytisins á forsjármálum. Í tveimur fyrstu málunum gerði umboðsmaður athugasemdir við málsmeðferðina og ráðuneytið tók tillit til þess. En í öðrum málum taldi hann ekki tilefni til athugasemda. Á þeim tíma sem liðinn er frá því að tilvitnað viðtal var tekið við umboðsmann hafa ráðuneytinu ekki borist athugasemdir hans vegna umfjöllunar ráðuneytisins um forsjármál.