Forsjárdeilur

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 14:44:00 (4334)


     Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svörin. Þau voru greinargóð að svo miklu leyti sem skilja mátti af hans svörum að upplýsingar lægju fyrir. Þau draga þó fram þá alvarlegu staðreynd sem ég reyndar kom inn á í máli mínu áðan að í mörgum tilvikum mælist sá tími frá því að forsjárdeilumál kemur upp og þangað til endanlegur úrskurður er felldur í árum frekar en í mánuðum. Sem betur fer eru væntanlega ekki mörg tilvik af því tagi sem þannig háttar til um en það er vissulega slæmt að slíkt skuli yfir höfuð eiga sér stað. Því miður hef ég upplýsingar um að í mörgum tilvikum sé ekki bara við barnaverndarnefndir að sakast, að þær taki sér langan tíma í að gefa sína umsögn til ráðuneytisins þegar deilumál eru uppi, heldur munu þess einnig dæmi að til viðbótar margra mánaða tíma barnaverndarnefndanna, jafnvel hálfu til heilu ári, bætast við margir mánuðir sem það tekur ráðuneytið að fella sinn endanlega úrskurð.
    Varðandi svar við spurningu þrjú hafði ég hugsað mér að spyrja ekki síður um það hvaða vægi umsögn t.d. barnaverndarnefnda hefði þegar ráðuneytið fellir sinn úrskurð. Hæstv. ráðherra upplýsti hér hvernig unnið væri að þessu faglega innan ráðuneytisins, þar kæmu að því löglærðir menn og jafnvel þrír sem hefðu með sér samráð og mætti þannig segja að þeir mynduðu eins konar úrskurðardóm eða störfuðu með hliðstæðum hætti. En ég vil spyrja, ef hæstv. ráðherra gæti eitthverju bætt við svarið varðandi þennan þriðja lið: Hvaða vægi hafa rökstuddar og vandaðar umsagnir barnaverndarnefnda, t.d. í þeim tilvikum að í hlut eigi barnaverndarnefndir stærstu sveitarfélaganna, sem hafa sjálfar á að skipa faglærðu fólki og leggja mikla vinnu í að undirbúa sína umsögn til ráðuneytisins? Það væri fróðlegt ef hæstv. ráðherra vissi deili á því í hve mörgum tilvikum er þá breytt út frá þeirri niðurstöðu í málinu sem barnaverndarnefndir leggja til í sinni umsögn.
    Það er fagnaðarefni að viss betrumbót hefur orðið á meðferð þessara mála í dómsmrn., m.a. vegna ábendinga frá umboðsmanni Alþingis. Mér er kunnugt um að nú upp á síðkastið hefur orðið sú framför að ráðuneytið rökstyður úrskurð sinn í forsjárdeilum og er auðvitað sjálfsagt mál og þó fyrr hefði verið. Það er í sjálfu sér ánægjulegt að vita til þess. Í þessu tilviki hefur starf umboðsmanns Alþingis skilað árangri.
    Herra forseti. Ég skal ljúka máli mínu en mín niðurstaða er sú að svör hæstv. ráðherra, sem ég þakka fyrir, staðfesta þá vitneskju sem ég þóttist hafa að því miður er framkvæmd þessara mála oft á tíðum ekki eins greið og skjót í stjórnkerfinu og æskilegt og raunar nauðsynlegt væri með tilliti til þess hversu alvarleg og viðkvæm þessi mál eru.