Forsjárdeilur

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 14:48:00 (4335)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það kom fram í máli hæstv. dómsmrh. að forsjármál væru oft býsna lengi í meðferð barnaverndaryfirvalda. Skipan þeirra mála á Íslandi er satt að segja fyrir neðan allar hellur. Eins og menn þekkja þá erum við hér með marga tugi barnaverndarnefnda sem eru ákaflega veikar og standast oft á tíðum engar faglegar kröfur. Þetta á auðvitað ekki síst við um dreifbýlið þar sem um er að ræða tiltölulega mjög fáa einstaklinga sem hægt er að kalla til ákvörðunar á þessu sviði. Af þessu tilefni vil ég spyrja hæstv. dóms- og kirkjumrh. að því hvenær þess er að vænta að ríkisstjórnin flytji frv. til laga um vernd barna og unglinga. Það mál var tilbúið í lok síðasta þings, hafði þá sætt ítarlegri meðferð á síðasta þingi.

Það hafði náðst samstaða í hv. menntmn. um rækilegar breytingar á lögunum um vernd barna- og ungmenna. Þar áttu hlut að máli fulltrúar allra flokka, t.d. hæstv. forseti Alþingis o.fl. Og ég vil spyrja: Hvenær er þess að vænta að það verði staðið þannig að þessu máli að Alþingi geti snúið sér að því að afgreiða það? Af mörgu sem er ábótavant hjá okkur þá hygg ég að meðferð barnaverndarmála sé þegar á heildina er litið eitt það lakasta sem þekkist í okkar stjórnkerfi.