Beiðni um skýrslur

101. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 14:59:00 (4337)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það eru liðnir fimm mánuðir frá því að ég lagði fram ásamt öðrum þingmönnum Alþb. tvær beiðnir um skýrslur. Í fyrsta lagi beiðni um skýrslu um stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum aldraðra og kemur út af fyrir sig ekki á óvart þó að það taki ríkisstjórnina talsverðan tíma að koma slíkri skýrslu saman. Það er sérkennilegt að hún skuli ekki hafa birst hér enn og ég vil ítreka spurningu mína frá fyrri fundum til hæstv. forseta um það hvenær hæstv. heilbrrh. muni leggja þessa skýrslu fyrir Alþingi.
    Í öðru lagi lögðum við þingmenn Alþb. fram fyrir fimm mánuðum beiðni um skýrslu um stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum íslensks iðnaðar og það kemur heldur ekki á óvart að það vefjist fyrir ríkisstjórninni að koma saman skýrslu um stefnu sína í málefnum íslensks iðnaðar. Engu að síður er það svo að við þingmenn Alþb. erum orðnir óþolinmóðir að bíða eftir þessum skýrslum því að það er nauðsynlegt að fá þær ræddar hér á hv. Alþingi. Því vil ég nú í annað eða þriðja sinn beina þeirri spurningu til hæstv. forseta: Hvenær þess er að vænta að skýrslurnar komi hér fyrir þingið þannig að þær megi taka til umræðu?