Beiðni um skýrslur

101. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 15:01:55 (4339)

     Svavar Gestsson :
    Ég vil þakka hæstv. forseta fyrir góðar undirtektir við málaleitan mína nú sem fyrr. Forsetar hafa jafnan brugðist vel við hver sem setið hefur í forsetasæti eins og hv. 3. þm. Reykv. sem gerði óðara ráðstafanir til þess að hafa samband við viðkomandi ráðherra út af þessu máli. Ég vona sannarlega að eftirreksturinn beri núna árangur þannig að viðkomandi ráðherrar, sem reyndar eru báðir ráðherrar Alþfl., fari að skila heimavinnunni sinni. Það er rétt af því að ég sé hér út undan mér hv. 17. þm. Reykv., sem á náttúrlega að hafa eftirlit með þeim líka, að beina því allra náðarsamlegast til hans að hann kanni það hvort ráðherrarnir geti ekki verið svo vinsamlegir að fara að skrifa skýrslur um stefnu ríkisstjórnarinnar í þeim málaflokkum sem hér voru nefndir.