Veiting ríkisborgararéttar

101. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 15:03:00 (4341)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Það er ekki venjan að hér verði mikil umræða um mál eins og þessi. En þar sem ég sat um árabil í hv. allshn. ætla ég að leyfa mér að minnast á það við hæstv. dómsmrh. enn og aftur að ég tel að mikla nauðsyn beri til að endurskoða lög um ríkisborgararétt.
    Eins og menn e.t.v. vita þarf útlendingur að vera í tíu ár á Íslandi til þess að eiga möguleika á að verða íslenskur ríkisborgari, þrjú ár ef hann hefur kvænst eða gifst til landsins eða er Norðurlandabúi, þ.e. ef reglur eru eins og þær hafa verið og ég hygg að svo sé enn. Ég vil gera þær að umræðuefni vegna þess að í mörgum tilvikum getur það komið sér afar illa og mér finnst virðuleg nefnd oft afar þröngsýn þegar um er að ræða vafamál. Fyrir allshn. liggur nú umsókn serbneskrar fjölskyldu sem hér hefur búið líklega á fimmta ár, Danilo-fjölskyldan. Þau hafa búið hér má ég segja á fimmta ár. Hann er tæknifræðingur að mennt, hefur unnið við Blönduvirkjun og rekur nú eigið fyrirtæki. Bæði hjónin eru vel menntað fólk og eiga sjö ára gamalt barn sem hefur búið hér lungann úr lífi sínu og talar íslensku eitt tungumála fullkomlega eins og sagt er. Þau eiga íbúð hér í bæ og eru á allan hátt ákaflega virt og vel liðið fólk. Þau hafa lagt fram gögn þar að lútandi frá ólíklegustu og líklegustu aðilum, sýslumönnum, bæjarfógetum, vinnuveitendum og öðrum slíkum. Nú væri þessu fólki svo sem ekkert að vanbúnaði að bíða í sín tíu ár eftir að fá að gerast íslenskir ríkisborgarar ef ekki kæmi til ástandið í þeirra heimalandi. Þau eru Serbar, eins og ég hef áður sagt, og geta þess vegna ekki heimsótt ættingja sína í Júgóslavíu vegna þess að þeir búa í Króatíu. Þetta hefur legið fyrir nefndinni og ég vil leyfa mér, úr því að engan árangur ber að tala við nefndarmenn um þetta mál, að lýsa því hér fyrir þingheimi öllum að ég tel að hér sé unnið á afar þröngsýnan hátt. Ég hef persónulega kynnst þessu fólki lítillega og einkum fólki sem þekkir þau mjög vel og mér er fullkunnugt um að okkar ágæta þjóðfélagi væri fengur að þessu fólki frekar en hitt. Þau þurfa ekki á neinni aðstoð þess að halda. Þau hafa fremur fært þekkingu inn í landið.
    Ég vil þess vegna fara þess formlega á leit við hv. allshn. að við afgreiðslu á þessu frv. nú verði mál Danilo-fjölskyldunnar tekið upp. Ég tel ekki neitt mæla gegn því að þau geti gerst íslenskir ríkisborgarar þannig að þau fái íslenskt vegabréf og geti þannig farið sem frjálsar manneskjur í heimsókn til síns ættlands. Þau ætla að vera hér og hafa sest hér að fyrir fullt og allt og hafa ekkert það gert sem gerir þau að óæskilegum þegnum. Ég tel, þó að vissulega beri að fara að lögum sem ég býst við að yrði svarið, að hér sé um undantekningarástand að ræða sem oft hefur verið virt og ég vil minna á að þegar víetnömsku flóttamennirnir komu hingað fengu þeir ríkisborgararétt samstundis og ekkert nema sjálfsagt og gott um það að segja. En vegna ástandsins í heimalandi þessa fólks sem lokar það frá ættingjum sínum sem það mundi að öðrum kosti heimsækja, þau hafa öll efni til þess, vil ég fara fram á það við hv. formann nefndarinnar eða varaformann, þar sem formaður er ekki viðstaddur, og biðja um að þvergirðingshætti sem þessum sé ekki beitt til hins ýtrasta og að tillit verði tekið til aðstæðna þessarar fjölskyldu.