Veiting ríkisborgararéttar

101. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 15:11:00 (4344)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Vegna orða hv. síðasta ræðumanns kveð ég mér hljóðs. Ég heyrði ekki betur en hún segði að það skipti máli hvernig fólk væri á litinn hvaða afgreiðslu mál fengju hjá hv. nefnd. Hér er auðvitað um svo alvarlegar ásakanir að ræða að hv. þm. hlýtur að þurfa að styðja þær frekari rökum en slá fram slíkri fullyrðingu hér úr þessum ræðustól á Alþingi. Það má vera að mér hafi misheyrst eða ég hafi misskilið það sem hún sagði en hafi hún sagt það sem mér heyrðist hún segja hlýtur hún að styðja það rökum og dæmum. Ég hef átt sæti í hv. nefnd og átti það lengi og fjallaði um þessi mál. Ég vil ekki sitja undir slíkum ásökunum, slíkum fullyrðingum sem er slegið fram án þess að rökstutt sé. Þess vegna hlýtur það að vera krafa til hv. þm. að hún rökstyðji mál sitt og sanni mál sitt. Ég held að það vilji enginn þingmaður sitja undir þessum alvarlegu ásökunum hennar.