Veiting ríkisborgararéttar

101. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 15:19:00 (4348)


     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með þeim sem hér hafa talað um að hér þurfi að koma skýrari og greinilegri reglur um það hvernig ríkisborgararéttur er veittur. Ég vil jafnframt taka það fram að þrátt fyrir að slíkar reglur yrðu samdar yrðum við jafnframt að gæta þess vel að þær væru ekki svo ósveigjanlegar að ekki væri hægt að taka tillit til ófyrirsjáanlegra aðstæðna. Og að því leyti held ég að hver sá aðili sem kemur nálægt slíkum málum, hvort sem það er allshn. Alþingis eins og nú er í samráði og samstarfi við fulltrúa ráðuneytis, því að ekki er það nú svo að allshn. sitji hér sveitt og fari yfir hverja einustu umsókn þó að það sé hægt, heldur er að sjálfsögðu búið að fara yfir þær starfsreglur sem nú eru í gildi og meta umsóknir út frá þeim. En ég tel að það sé algerlega óhjákvæmilegt að hafa bæði sanngjarnar reglur, í takt við alþjóðlegt siðferði sem menn hafa komið sér saman um því heimurinn er síbreytilegur. Það verður jafnframt að hafa nógu mikið svigrúm til þess að þeir sem eiga um þessi mál að fjalla geti tekið sérstaklega tillit til aðstæðna.
    Ég hef ekki setið í allshn. fyrr en nú í vetur. Ég get því ekkert dæmt um hvernig unnið hefur verið að þessum málum áður. En ég held að ég geti sagt með góðri samvisku að það hefur verið reynt að fjalla um þessi mál af þeirri sanngirni og ég vona víðsýni sem hægt er. Það hefur jafnframt verið okkur nokkuð erfitt að við erum bundin af því að þurfa að meta hvernig og hvenær er réttlátt að gera undantekningar því að ekki vill maður vera sakaður um að mismuna fólki. Það getur stangast mjög alvarlega á að taka tillit til sanngjarnra ábendinga um sérstakt tilvik og svo að sýna fyllsta réttlæti og mismuna ekki fólki. Mér dettur ekki í hug að hægt sé að semja sanngjarnar reglur. Þess vegna hlýtur að koma til kasta einhverra aðila að leggja jafnframt mat, eftir því sem best verður hægt og hafa þar einhverjar ákveðnar hugmyndir að leiðarljósi, á þau tilvik sem ekki eru fyrirsjáanleg þegar reglur eru samdar. Ég legg mikla áherslu á það að við megum hvorki festa okkur í kerfinu né hafa kerfið ósanngjarnt eða of ósveigjanlegt.
    Ég er ekki sérlega hrifinn af þeim hætti sem hafður er á meðferð umsókna um ríkiborgararétt nú. Ég er hins vegar ekki tilbúin með neinar gallharðar tillögur um hvernig eigi að breyta þessu en ég held að allir séu sammála um að endurskoðun þarf að fara fram. Nú eru starfsreglur í gildi og út af fyrir sig er ekkert nema gott eitt um þær að segja svo langt sem þær ná og miðað við þann stakk sem þeim er skorinn. En ég held að verið sé að leggja á allshn. vinnu sem henni er í rauninni ekki ætlað svigrúm til þess að geta sinnt nema að vissu marki. Þetta er auðvitað ekki viðunandi fyrir okkur sem eigum að taka þessa ábyrgð

á okkur.
    En ég vil ítreka það að á þeim eina vetri sem ég hef haft reynslu af þessari vinnu held ég að þar hafi ekki ríkt neinir kynþáttafordómar eða annað slík. Ég vona að ég fari þar rétt með. Það er minn skilningur og ég trúi ekki öðru en hann sé réttur. Ég held aftur á móti að menn hafi meiningarmun á því hve skamman tíma fólk á að búa á landinu áður en það hefur möguleika á að öðlast ríkisborgararétt. Ég held einnig að skiptar skoðanir séu um það hve mörg tilvik ættu að koma til kasta einhvers konar matsnefndar og úrskurðar. Sumir vilja einfaldlega hafa ósveigjanlegar reglur en því miður held ég að í þessu tilviki mundu ósveigjanlegar reglur verða ósanngjarnar. Ég skynja hins vegar það sem mjög mikið vandamál að erfitt er að draga þau mörk hvenær farið er að mismuna fólki ef einhver annar úrskurður en hárbeittar reglur er notaður. Ég held að þótt hafa megi einhver orð um það hvar þessi umræða eigi að fara fram, hvort hún eigi heima í þingsölum, held ég að það sé mat flestra að það þurfi að fara að vinna að þessu máli. Við urðum vör við það núna í fyrra áfanga þessarar vinnu í vetur að það er ekki beinlínis þægilegt hlutverk að vera settur í að fjalla um ríkisborgararétt miðað þann ramma sem okkur er settur núna og oft á tíðum --- ég geta alla vega lýst því sem minni persónulegu skoðun að í nokkrum tilfellum sem komu á okkar borð hefði mér fundist að reglurnar mættu vera sveigjanlegri. En ég heyrði það jafnframt að það væri frekar þegar síðari frv. um veitingu ríkisborgararéttar er lagt fram á Alþingi á hverjum vetri sem undantekningartilvikin fengju meiri umfjöllun. Og ég treysti því.