Veiting ríkisborgararéttar

101. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 15:26:00 (4349)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég tek undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram að núverandi fyrirkomulag á því hvernig útlendingar öðlast ríkisborgararétt er orðið nokkuð forneskjulegt og ekki lengur samboðið okkur í nútímaþjóðfélagi. Ég er alveg sammála hv. 18. þm. Reykv. að það er undarlegt að þingmenn séu að fara yfir einstaka umsóknir. Það er undarlegt fyrirkomulag og ástæða er til þess að breyta því. Ég tel að það eigi að endurskoða lögin sem um þetta gilda og ég er á þeirri skoðun að nefndin sjálf ætti að taka þetta upp sem sitt verkefni. Samkvæmt núgildandi þingskapalögum er nefnd heimilt að taka mál sjálf upp og vinna það. Ég tel að það væri eðlilegt að nefndin tæki þetta mál upp af sjálfsdáðum, athugaði það í þeim tilgangi að flytja frv. til breytinga á núv. löggjöf. Í þeirri löggjöf vildi ég sjá breytingu á því almenna viðhorfi sem er til þessara mála frá því sem nú er að menn öðlast ekki íslenskan ríkisborgararétt nema með sérstökum lögum. Það er hið almenna viðhorf að útlendingar geti ekki orðið íslenskir ríkisborgarar nema þeir sanni að þeir séu þess verðugir. Ég vil snúa málinu við og líta á útlendinga eins og hvert annað fólk, góða og gilda þegna þar til annað kemur í ljós. Almenna reglan ætti því að vera sú að menn geti fengið ríkisborgararétt að uppfylltum einhverjum almennum reglum. En frávikin varði fyrirstöðu ef einhver eru, snúa í raun og veru leiðinni við. Ég tel það ekki vera hlutverk þingmanna að vasast í einstökum umsóknum. Það ætti að vera embættismannamál og við eigum að útbúa lögin þannig að þar sé tilteknum aðilum falið að vinna þetta verk.
    Hitt er annað að auðvitað hefur núverandi allshn. orðið að vinna eftir þeim lögum og reglum sem gilda og þau hafa það í för með sér að menn verða að setjast yfir hvern og einn einstakling sem sækir um, vega hann og meta, sem er satt að segja heldur leiðigjarnt og mér liggur við að segja ógeðfellt verkefni að vega og meta einstaklinga með þessum hætti, en þetta verðum við að láta okkur hafa sem höfum verið í þessari vinnu í vetur. Ég held að um alla sem í nefndinni eru megi segja og kannski sérstaklega mig og hv. 5. þm. Reykv., sem fengum það verkefni í vetur að mynda undirnefnd til að fara yfir gögnin, að þau viðhorf eða sjónarmið að menn taki á umsögnum eftir litarhætti, trúarbrögðum eða öðru slíku hafa ekki verið fyir hendi. En hins vegar eru þær reglur sem nú eru í gildi með þeim annmörkum að þær eru svo ónákvæmar að menn lenda í þeirri stöðu að þurfa að leggja nánast persónulegt mat á umsóknir í ákveðnum tilvikum. Og það er afar óþægileg staða að þurfa að leggja persónulegt mat þar sem leiðbeiningum sleppir og lagafyrirmælum. Ég vil ekki ætla nokkrum þingmanni til lengdar að vera í því hlutverki. Hins vegar vek ég athygli á því að nefndin komst frá þessu erfiða verkefni í haust þannig að hún var samstiga um það og það segir út af fyrir sig þó nokkuð um það að menn hafi verið sáttir að kalla um niðurstöðuna. En ég legg áherslu á að nefndin taki þetta upp sjálf. Ég hef ekkert á móti því ef hæstv. dómsmrh. vill taka það verkefni upp að endurskoða lögin. Aðalatriðið er að menn ákveði að fara yfir núgildandi lög og endurskoða þau og breyta þeim til nútímalegra viðhorfs. Ég held að núv. löggjöf sé allt of gamaldags til þess að við getum búið við hana áfram.