Jarðgöng milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar

101. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 15:56:00 (4355)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það er athyglisverð tillaga sem hv. þm. Hrafnkell A. Jónsson flytur hér, einkum og sér í lagi vegna þess úr hvaða flokki hann kemur. Eins og kunnugt er hefur núv. ríkisstjórn beitt sér mjög hart fyrir því að skera niður framlög til framkvæmda og félagslegrar þjónustu, menntamála, heilbrigðismála, félagsmála og jafnvel dómsmála. Löggan er orðin svo fámenn að það horfir til vandræða. Á sama tíma og þetta er hin yfirlýsta stefna Sjálfstfl. kemur hér framfarasinnaður þingmaður stjórnarliðsins af Austurlandi og leggur til að farið verði í jarðgöng sem kosta þó nokkuð mikla upphæð, 2,5 milljarða eða hvað það nú er. Ég er ekki að nefna þetta hér vegna þess að ég telji ástæðu til þess að gagnrýna þingmanninn heldur þvert á móti. Ég held að miðað við núverandi aðstæður í efnahagsmálum væri að mörgu leyti skynsamlegt að hraða verulega framkvæmdum í vega- og samgöngumálum í landinu frekar en að skera niður. Það er fróðlegt að velta því fyrir sér í þessu sambandi hvernig staðan er t.d. á halla ríkissjóðs á Íslandi í samanburði við ríkissjóð annarra landa. En þingmenn stjórnarflokkanna hafa í raun og veru réttlætt niðurskurðinn í heilbrigðiskerfinu og niðurskurðinn í menntakerfinu með því að ríkissjóður stæði svo illa miðað við ríkissjóði yfirleitt að við þyldum það ekki og skuldir á mann væru svo gríðarlega miklar að það væri óþolandi.
    Staðreyndin er sú að þegar hallinn á ríkissjóði Íslands er borinn saman við hallann á ríkissjóði annarra landa á síðasta ári, og jafnvel þótt teknar séu trúanlegar þær gríðarlegu tölur sem fjmrh. hefur verið að gefa upp, þá er það augljóst að hallinn á ríkissjóði Íslands er miklu minni en gerist hjá þjóðum með sambærileg hagkerfi. Þess vegna er afsökun þingmanna Alþfl. fyrir því að standa að niðurskurði í heilbrigðismálum og fleiru með því að hallinn á ríkissjóði sé svo mikill algerlega út í hött.
    Hitt atriðið blasir svo líka við í þessu efni að þegar samdráttur verður hjá þjóðinni, þegar þjóðartekjur lækka, þegar atvinnuleysi blasir við þúsundum manna, meira atvinnuleysi en við höfum þekkt um áratuga skeið og þegar hér í þingsalnum sitja a.m.k. tveir þekktir verkalýðsleiðtogar, af Austurlandi og af Vestfjörðum, þá hlýtur maður auðvitað að velta því fyrir sér hvort ekki sé skynsamlegt, einmitt við núverandi aðstæður, að fallast á það að framkvæmdum í vega- og samgöngumálum verði flýtt sérstaklega. Jarðgangaframkvæmdum t.d. á Vestfjörðum verði ekki seinkað heldur flýtt og ekki verði seinkað undirbúningi við vinnu jarðganga á Austfjörðum heldur flýtt.
    Að því er þessi mál varðar þá er kannski rétt að rifja það upp, sem er einkar ánægjulegt, að þegar ákvarðanir voru teknar um uppbyggingu fyrstu jarðganganna voru það þannig að Austfirðingar studdu það heils hugar, m.a. þingmenn Austfjarða ef ég man rétt, að byrjað yrði á framkvæmdum á Vestfjörðum. Og ég tel að þessi afstaða austfirskra þingmanna hafi í raun verið til fyrirmyndar og ætti að geta slegið á kenningar um hrepparíg og hreppapot sem oft eru hafðar uppi um afstöðu þingmanna landsbyggðarinnar. En það þýðir auðvitað að Austfirðingar hljóta að vera næstir á blaði og þeir þurfa auðvitað að gera það upp í sínum hóp í hvaða röð þeir ákveða að fara í verkefnin án þess að ég ætli neitt að blanda mér í það á þessu stigi málsins.
    Hitt er ánægjulegt og ástæðan til þess að ég kveð mér hljóðs að þingmaður Sjálfstfl. sér út fyrir niðurskurðarhauga núv. ríkisstjórnar, víðsýnn þingmaður, kemur hér inn í fyrir Sjálfstfl. loksins, og er það framför, og ákveður að gera tillögu um að auka hér dálítið við. Þetta er framfarasinnaður maður og hefði verið fróðlegt að heyra svoleiðis viðhorf t.d. úr Alþfl. en það virðist vera alveg borin von að heyra nokkurt slíkt kvak úr þeim flokki. Kemur ekki maður frá íhaldinu, að vísu með ágætan bakgrunn og sæmilega uppalinn pólitískt verð ég að taka fram. Þeir hafa gefist ágætlega, þessir menn sem hér sitja inni fyrir ýmsa flokka en eru aldrei uppi á réttum stöðum, gefist prýðilega eins og hv. þm. Hrafnkell A. Jónsson og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, svo ég nefni nú tvo snillinga sem einna fremstir ganga í þessum hópi, úr þessum klakstöðvum.
    Staðreyndin er sú að niðurskurðarpólitík ríkisstjórnarinnar eins og hún hefur birst er að fara mjög illa með þjóðina. Í Pressunni í dag birtist skoðanakönnun á vegum Skáís þar sem segir frá því að tæplega helmingur Íslendinga vilji helst fara úr landi, vilji helst fara burtu. Það segir sína sögu um viðhorf þjóðarinnar um þessar mundir. Svartsýni er ríkjandi, það er svartsýni og bölmóður ríkjandi því miður. Þess vegna þurfum við hér bjartsýna stjórnarstefnu sem þorir að ganga til verka í samræmi við almennar forsendur efnahagslífsins, hefur heildaryfirsýn og lætur ekki niðurskurðinn blekkja sig til óhæfuverka á öllum sviðum eins og nú er að gerast. Ég tel að hér sé þess vegna hreyft mjög mikilvægu máli. Það er athyglisverð ábending sem fram kemur í þáltill. að við það verði miðað að jarðgöngin verði þáttur í gerð hringvegarins. Með þessu er hv. þm. auðvitað að mælast til að jarðgöngin verði ekki reiknuð inn á kvóta Austfjarða. Við þekkjum auðvitað þann vanda sem dreifbýlið hefur oft staðið frammi fyrir að þessu leytinu til þegar um hefur verið að ræða stórframkvæmdir í vegamálum í einstökum byggðarlögum. T.d. á Vesturlandi, þegar brúin yfir Borgarfjörð var byggð, var hún talin Vesturlandi til tekna þó að þar væri auðvitað um að ræða samgöngubætur fyrir þjóðina alla. Fleiri dæmi af því tagi mætti nefna. Hér er einnig hreyft mjög athyglisverðri hugmynd að því leyti að taka ætti þessa framkvæmd jarðganga milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar eða jarðgangaframkvæmd af svipuðu tagi út úr Austfjarðpakkanum og gera þetta að hluta af hinum almennu framkvæmdum í vegamálum, þeirra vega sem engin atkvæði eiga, eins og menn kölluðu það stundum hér. Hv. þm. Lúðvík Jósepsson nefndi það stundum því nafni þegar kom að skiptingu vegafjár. Þess vegna er hér hreyft ákaflega þýðingarmiklu máli og ég vona að hv. þingnefnd taki þessu vel og meti sérstaklega hvort hugsanlegt er að taka einstakar framkvæmdir af þessu tagi út úr skiptingu hins almenna vegafjár. Að vísu hefur það gerst stundum. Framlögin til svokallaðra Ó-vega, þ.e. Ólafsfjarðarganganna, Óshlíðar og Ólafsvíkurennis, voru tekin út úr hinni almennu skiptingu um skeið svo það er í sjálfu sér ekkert nýtt. En það er athyglisvert að hv. þm. Hrafnkell A. Jónsson, þingmaður Sjálfstfl., skuli hreyfa máli af þessu tagi, sem er auðvitað fullkomið stílbrot við stefnu Sjálfstfl., en einmitt þess vegna er því fagnað hér sérstaklega.