Jarðgöng milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar

101. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 16:06:00 (4357)

     Flm. (Hrafnkell A. Jónsson) :
    Herra forseti. Ég þakka hv. þm. góðar undirtektir við meginmálið. Eins þakka ég hv. þm. Svavari Gestssyni fyrir afskaplega hlý orð í minn garð og með skírskotun til fortíðarinnar. Ég vil segja hv. þm. Svavari Gestssyni það að Sjálfstfl. er upp til hópa ákaflega framfarasinnaður hver svo sem bakgrunnur hv. þm. flokksins eru. Þetta veit ég að hv. þm. Svavar Gestsson gerir sér grein fyrir þó hann vilji láta annað í veðri vaka. Hann talar um skipbrot þegar ég legg tillöguna fram. Ég get sagt hv. þm. og öðrum það að mér er fyllilega ljóst að á meðan verið er að taka til í ríkisfjármálunum eftir viðskilnað hv. þm. verður e.t.v. ansi þröngt um að ráðist verði í stórar framkvæmdir af þessu tagi.
    Ég vil segja frá því að ég leitaði mér upplýsinga hjá Vegagerð ríkisins um lauslega kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar varðandi þessa framkvæmd. Hún mundi kosta 1.850 millj. kr. og vissulega er þar um að ræða stórar upphæðir. Ég tók það líka fram að aðrar ódýrari leiðir eru vissulega fyrir hendi en því flyt ég þessa tillögu að mér finnst mjög brýnt að þegar tekin verður endanleg ákvörðun um uppbyggingu hringvegarins á þessu svæði verði þess leið líka könnuð jafnvel þótt hún sé dýrari. Það er hægt, eins og áformað er, að leggja veginn frá Fáskrúðsfirði út fyrir Vattarnes og til Reyðarfjarðar. Vegurinn yrði 32 km lengri og hann yrði ekki sú lyftistöng sem jarðgöng yrðu fyrir byggðirnar á Miðausturlandi.
    Það er líka hægt að leggja hringveginn yfir Breiðdalsheiði eins og þjóðvegur 1 liggur í dag. Með þeirri lausn væri verið að leggja fjallveg. Það mundi að vísu stytta allnokkuð leið Breiðdælinga og annarra Austfirðinga sem búa sunnar til Egilsstaða og það mundi stytta hringveginn í einhverjum mæli en það mundi ekki vera sú upplyfting fyrir byggðirnar sem jarðgöngin eru.
    Þriðja leiðin sem aðeins hefur komið til umræðu nú á einustu vikum lýtur að því að leggja veg upp úr Berufirði og yfir fjallveginn Öxi ofan í Skriðdal. Þar væri um að ræða umtalsverða styttingu hringvegarins. Það mundi skapa verulega breytta aðstöðu fyrir byggðirnar við Berufjörð og þar fyrir sunnan en tvennt mælir á móti því sem leið til þess að ljúka hringveginum. Í fyrsta lagi að veginn yrði að leggja yfir fjallveg og í annan stað að byggðirnar norðan Berufjarðar nytu ekki góðs af þeirri leið.
    Varðandi fyrirspurn hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur, þá treysti ég mér ekki til að svara hér fyrir hv. 2. þm. Austurl. sem er nú kominn í salinn og ég vænti að muni svara fyrir sig sjálfur. Ég get sagt hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur það að ég tel mig ekki vera að gera hér tillögu um forgangsröð jarðganga á Austurlandi. Fram kemur í þáltill. að lagt er til að þetta verði kannað með það fyrir augum að það verði þáttur í gerð hringvegarins. Sú jarðgangagerð sem Austfirðingar hafa talað um og hefur kannski verið mest uppi á seinustu missirum hefur lotið að því að rjúfa vetrareinangrun byggða eins og Neskaupstaðar, Seyðisfjarðar og Vopnafjarðar. Ég reyndi, þó að það hafi e.t.v. ekki verið nógu skýrt, í minni framsögðu að koma því sjónarmiði að að þarna yrði að leggja tvenns konar mat á þessar framkvæmdir, annars vegar að ljúka hringveginum, hins vegar það sjónarmið sem m.a. var uppi þegar göngin til Ólafsfjarðar voru gerð og það sjónarmið sem haft var til hliðsjónar við gerð Vestfjarðaganganna, þ.e. að rjúfa vetrareinangrun byggða og koma þeim í heilsárstengingu við hringveginn. Af þeirri ástæðu vil ég að það komi skýrt fram af minni hálfu að hér er ekki verið að taka afstöðu til forgangsverkefna hvað varðar þessi markmið en ég tel mjög brýnt að þegar tekin verður endanleg ákvörðun um hvernig hringveginum á þessu svæði verði lokið, þá verði þessi sjónarmið tekin til athugunar líka. Við megum ekki ævinlega spara eyrinn og kasta krónunni. Það gerum við gjarnan þegar við erum að velja ódýru lausnirnar sem allir sjá að til lengri tíma munu verða dýrari og skila þjóðfélaginu minna. Ég lít svo á að ef því verður hafnað að stytta þessa leið verðulega, ef því verður hafnað að skapa á Miðausturlandi samfellt verslunar- og þjónustusvæði, eins og hægt er með þessari framkvæmd, að þá séu menn að spara eyrinn og kasta krónunni.