Jarðgöng milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar

101. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 16:26:00 (4361)

     Svavar Gestsson :
    Herra forseti. Forseti hafði beint því til mín að tími væri stuttur vegna þess að tveir hv. varaþingmenn þyrftu að mæla fyrir sínum málum sem ég hafði ekki áttað mig á fyrr. Ég mun því stytta mál mitt mjög til að greiða fyrir því að þessi tillaga komist til nefndar, þ.e. tillaga tveggja hv. þm. Austurl., og segja um leið að ég fagna sérstaklega þeirri ræðu sem hv. 4. þm. Reykv. flutti hér áðan vegna þess að hún minnti mig á þá tíma þegar hann var að flytja frv. um happdrættislán vegna hringvegarins, mig minnir að það hafi heitað því nafni. Það breytti náttúrlega mjög verulegu hér um framkvæmdahraða í vegamálum og hafði ekki aðeins áhrif á hringveginn sem slíkan heldur á vegaframkvæmdir og hugsun í vegamálum á Íslandi yfirleitt. Ég held að það sé sú hugsun sem menn þurfi að temja sér einmitt núna þegar hlutirnir standa jafnilla og raun ber vitni um og við erum með mörg þúsund manns á atvinnuleysisskrá.
    Ég held því reyndar fram, virðulegi forseti, að sú stefna ríkisstjórnarinnar að skera niður og skera aftur niður þýði í raun að ríkissjóður standi verr eftir en áður vegna þess að þeir fjármunir og þau verðmæti sem fólk er að skapa með vinnu sinni, hjá ríkinu líka, skilar sér aftur til ríkisins. Með öðrum orðum er ég að halda því fram, virðulegi forseti, að þegar grannt er skoðað sé sá niðurskurður á samneyslu í heilbrigðismálum og menntamálum í rauninni þannig að hann komi ríkinu í koll. Ég skora á stjórnarliða sem hér eru að velta því fyrir sér hvort þetta er ekki þannig, að menn séu að skera niður eiginlegar tekjur ríkisins þegar þeir þykjast vera að spara.
    Ég endurtek að ég hafði lofað að tala hér mjög stutt mál og stend við það og endurtek þakkir mínar til hv. þm. Hrafnkels A. Jónssonar fyrir að hafa gerst stílbrjótur í Sjálfstfl. sem vonandi bendir til þess að hann sé á ný lagður af stað og aftur heim til sín.