Rannsókn á umfangi skattsvika

101. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 16:38:00 (4363)

     Flm. (Pétur Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Sú till. til þál. um rannsókn á umfangi skattsvika sem ég mæli hér fyrir hljóðar þannig:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta nú þegar kanna í samvinnu við skattyfirvöld:
    1. hvert umfang skattsvika hérlendis sé miðað við upplýsingar um þjóðartekjur í þjóðhagsreikningum og framtaldar tekjur í skattframtölum,
    2. umfang virðisaukaskattssvika og hvaða áhrif undanþágur, sem veittar hafa verið, hafa á tekjur ríkissjóðs af skatti þessum og hvort þær séu misnotaðar.
    Niðurstöður skulu liggja fyrir Alþingi eigi síðar en 1. október 1992.``
    Í greinargerð segir:
    ,,    Á Alþingi í maí 1984 var samþykkt áþekk þingsályktunartillaga. Þáverandi fjármálaráðherra, Albert Guðmundsson, skipaði síðan á haustdögum það ár vinnuhóp til að vinna þetta verkefni og lagði hópurinn fram skýrslu yfir störf sín og niðurstöður á 108. löggjafarþingi 1985--1986. Starfshópurinn komst að þeirri niðurstöðu að hér á landi ættu sér stað víðtæk skattsvik og ekki síst með undanskoti á söluskattsinnheimtu. Áætlað var að þannig yrði ríkissjóður af umtalsverðum tekjum sem stolið væri m.a. af þeim sem lögin gerðu ráð fyrir að væru innheimtuaðilar ríkissjóðs. Talið var að þarna væri um að ræða yfir 20 milljarða króna á verðlagi í dag.
    Nú þegar virðisaukaskattur, sem leysti hið hripleka söluskattskerfi af hólmi, hefur verið við lýði síðan 1. janúar 1990 er nauðsynlegt að gera nákvæma könnun á því hvort sú skilvirkni, sem virðisaukaskattinum átti að fylgja, hafi orðið sem skyldi. Einnig hafa reglur um tekjuskattsframtöl og reikningsuppgjör fyrirtækja tekið nokkrum breytingum á síðustu árum sem áttu að einfalda eftirlit skattyfirvalda með hvers konar fjármagnsumsvifum fyrirtækja og einstaklinga.
    Þar sem stór hluti af fjárþörf í sameiginlegan sjóð landsmanna er borinn uppi af þessari skattlagningu er mjög brýnt að kanna hvort eðlileg skil séu jafnan gerð og rétt fram talið til skatts. Þess vegna er þessi þingsályktunartillaga fram borin og óskað eftir skjótum viðbrögðum.``
    Í umræðum hér í morgun um fyrirspurnir um skattsvik og úrræði gegn þeim urðu töluverðar umræður um það efni sem þessi þáltill. fjallar um og ég heyrði ekki betur en að hæstv fjmrh. tæki vel í að það yrði undinn bráður bugur að því að láta þessa könnun fara fram, enda eru öll efni sem gefa til kynna að það sé nauðsynlegt. Eins og þáltill. ber með sér er farið fram á að ný könnun verði gerð á skattsvikum og þá sér í lagi á þeim tveimur meginþáttum skattaliða sem valdir hafa verið til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð. Sem betur fer eru flestir landsmenn samþykkir því að framkvæmdir á vegum hins opinbera, samhjálp og lífskjarajöfnun, fari fram með sköttum sem séu sem næst því sem menn bera eftir efnum og ástæðum. Það er þó allt of stór hluti landsmanna sem sýnir það með lífsvenjum og eignamyndun að samhengið milli skattgreiðslna og eigin eyðslu er í hrópandi andstöðu við skattskilin. Þetta ósamræmi milli launafólks og sjálfstæðra atvinnurekenda er svo hróplegt að oft er talað um að tekjuskatturinn t.d. sé eingöngu launamannaskattur. Tilburðir stjórnvalda til þess að efla eftirlit með skattskilum hafa verið ósköp máttlaus og fálmkennd. Vægast sagt hafa þeir ekki verkað trúverðugt á fólk. Og meðan stjórnvöld ná ekki tiltrú fólks í þessum efnum er ekki von til þess að menn taki þátt í því skatteftirliti sem nauðsynlegt er að almenningur stundi.
    Það kom í ljós í þeirri skýrslu sem vitnað var í hér áðan að skil á söluskatti og virðisaukaskatti síðar og tekju- og eignarskatti hafa verið í ákveðnum stíganda. Ef við tökum tekjuskattinn t.d. þá voru tekjuskattsskilin eða tekjur ríkissjóðs samkvæmt ríkisreikningi 1988 5,9 milljarðar, 1989 8,3 milljarðar, 1990 12 milljarðar og 1991 12,9 milljarðar. Árið 1992 er svo áætlað að hann skili ríkissjóði 14 milljörðum.
    Ef við tökum söluskattinn og síðar virðisaukaskattinn, þá eru tölurnar þannig að 1988 var innheimtur söluskattur 29,5 milljarðar, 1989 34 milljarðar, 1990 37 milljarðar og 1991 38,9 milljarðar og nú er gert að fyrir því að 1992 eigi hann að skila ríkissjóði 40,5 milljörðum.
    Nú er það greinilegt að í þessari upptalningu hjá mér kemur í ljós að það urðu ekki þau vatnaskil sem búist var við þegar fært var úr söluskattskerfinu yfir í virðisaukaskattskerfið. Það kemur í ljós í þessari margnefndu skýrslu að skattsvik voru veruleg og þá sérstaklega í söluskattinum og umræðan sem varð á næstu árum var einmitt um það að lagfæra þyrfti söluskattskerfið, fella niður undanþágur og breyta síðan yfir í virðisaukaskatt því að þá væri björninn unninn, þá næðum við árangri í þessari innheimtu. En það er greinilegt á þessum tölum, eins og ég sagði áðan, að það hefur ekki orðið. Ég verð að segja eins og er að ég var það bláeygður á sínum tíma þegar þessi skipti urðu. Ég hafði það mikla trú --- og hef reyndar enn þá þó hún hafi minnkað við það sem þarna gerðist --- á þeim hæstv. fjmrh. fyrrv., bæði Jóni Baldvini Hannibalssyni og Ólafi Ragnari Grímssyni, að ég hélt að þarna yrðu vatnaskil, ég hélt að þarna yrði aukin innheimta hjá ríkissjóði. Reyndar skal ég taka það fram, og það var í umræðunni, að þessi breyting átti að skila sömu tekjum til ríkissjóðs eins og sagt var. En ég endurtek að það vantaði upp á tekjur ríkissjóðs áður og það átti að skila sér með þessari breytingu.
    En nú verð ég að treysta á það að ef þessi könnun fer fram, þá muni hún skila svipaðri niðurstöðu, ég er alveg sannfærður um það og þá verður maður að treysta á það að núv. hæstv. fjmrh. gangi þá í málin og í skrokk á skattsvikurum landsins en ég átti nú ekki endilega von á því að ég þyrfti að beina þeim tilmælum til hans og að hann næði meiri og betri árangri heldur en mínir menn í þessum stól.
    Í þessu samhengi hefur oft verið talað um neðanjarðarhagkerfi, dulda efnahagsstarfsemi, nótulaus viðskipti og svarta atvinnustarfsemi og þetta var reyndar hér til umræðu í morgun. Allt þetta eru hugtök

sem mikið ber á í umræðunni um skattsvik. Almenningur á að vísu bágt með að átta sig á hvað þau merkja í raun. Þó eru þau í vitundinni tengd óheiðarleika. Meðan hinn venjulegi launamaður verður ekki var við að stjórnvöld aðhafist neitt til þess að uppræta starfsemi af þessu tagi kemur almenningur ekki til liðs í baráttunni við þennan vágest. Auðvitað er almenningur besta skatteftirlitið og almenning þarf að virkja í þessu sambandi. En til þess að fá einstaklinga virka í eftirlitið þarf að gera þeim það mögulegt með virkara eftirliti frá hinu opinbera, auðvelda fólki beinan aðgang að skattstofunum og að á skattstofunum yfirleitt sé starfandi nægjanlegur fjöldi hæfra manna til að sinna þessu eftirliti. En eins og allir vita hefur orðið þarna mjög mikill misbrestur á.
    Í þessari skýrslu sem unnin var á vegum Alberts Guðmundssonar var einmitt bent á ýmsar leiðir og sérstaklega undirstrikað að það þyrfti að leggja gífurlega áherslu á að efla skatteftirlitið og fjölga fólki í þeim störfum og mennta það. Sérstaklega var það undirstrikað að mennta fólk í þessum störfum. Við vitum að samkvæmt launakerfi ríkisins og eins og þeim málum er háttað, þá hafa skattstjórarnir ekki fengið nógu menntað fólk til þess að vinna fyrir sig. Aftur á móti er öllum ljóst að skattsvikararnir hafa öll tök á því að ráða til sín hæft fólk til þess að sniðganga skattalögin.
    Það er staðreynd að fólk horfir upp á það að eigendur fyrirtækja notfæra sér rúmar reglur og slælegt eftirlit til að taka sér laun eða ígildi launa með ýmsum miður heiðarlegum hætti í trausti þess að ekki komist upp um þá. Það þarf að auka eftirlit með þessu og það hafa ekki farið fram nógu miklar breytingar á framtalslögum og lögum um fyrirtæki, rekstur fyrirtækja til þess að þarna hafi náðst verulegur árangur nema síður væri. Ég álít að þær reglur sem settar hafa verið á undanförnum árum hafi einmitt rýmkað möguleika ýmissa manna til þess að notfæra sér skattalögin í auðgunarskyni. Ég vil nefna hér fáeina punkta um þær leiðir sem opnar eru mönnum sem reka fyrirtæki, og þá sérstaklega miðlungsstór og lítil fyrirtæki.
    1. Persónuleg útgjöld hluthafa, ættingja og sjálfstæðra atvinnurekenda færð sem rekstrarútgjöld hjá fyrirtækjunum eða stofnununum.
    2. Persónuleg útgjöld starfsmanna sömuleiðis færð sem rekstrarkostnaður.
    3. Viðhald sem er fært sem rekstrarkostnaður en ætti að eignfæra.
    4. Afskriftir útistandandi skulda sem eru þá misnotaðar eigendum í hag.
    5. Kaup eigna af hluthöfum eða ættingjum þeirra á verði sem er hærra en almennt gerist á markaðnum.
    6. Sala á eignum fyrirtækis til hluthafa eða ættingja undir markaðsverði.
    7. Vaxtalaus lán til sömu aðila.
    8. Gjafir færðar sem rekstrarkostnaður.
    Þarna er bara um smáatriði að ræða í þessum málum og ég veit og vona að ef þessi nefnd verður skipuð, þá fari hún einmitt rækilega ofan í þessi atriði í skattamálunum og í rekstri fyrirtækjanna.
    Í sambandi við heiðarleg skil á þeim sköttum sem menn eiga að greiða til ríkisins og ég tala nú ekki um þegar menn eru bara innheimtuaðilar skattsins eins og í virðisaukaskattskerfinu þá er það auðvitað mjög þýðingarmikið að það skili sér og reyndar líka til þess að nota sem stjórntæki og það höfum við löngum gert og ekki bara einir þjóða.
    Á síðustu missirum hefur nokkuð verið rætt um hátekjuskatt og það hefur kallað fram viðbrögð að slíkt sé óframkvæmanlegt vegna þess að slíkt kalli á verri skil á tekjuskatti. Að hátekjuskattur kalli á verri skil á tekjuskatti. Á að taka slíka umræðu þannig að tekjuskattskerfið sé svo ófullkomið að stór hópur landsmanna hafi þar sjálfdæmi? Ég get ekki skilið þessa umræðu öðruvísi. Og að þeir ráði sjálfir hvað þeir borgi í skatt?
    Það hefur komið fram hér áður í máli mínu að ég tel að tekjuskatturinn sé sannkallaður launamannaskattur og auðvitað væri það besta ráðið að feta sig út úr því að tekjuskattur sé yfirleitt við lýði hér, sérstaklega vegna þess að manni sýnist að það sé algjör uppgjöf við það að ráða bót á þessum ófarnaði. (Forseti hringir.) Virðulegi forseti. Ég er að ljúka máli mínu.
    Að undanförnu hefur líka verið talað um það að afnema barnabætur eða hafa þar ákveðinn tilflutning, að afnema barnabætur hjá þeim sem hafa háar tekjur en hækka barnabætur hjá þeim sem hafa lágar tekjur. Þar komum við einmitt aftur að þessum skrípaleik sem getur gerst, og hefur reyndar gerst hér á landi þegar á að jafna kjör manna í gegnum ríkissjóð og miðað við skatttekjur, þá er mjög líklegt að þeir sem fá hærri barnabætur í þessu tilviki verði einmitt þeir sem hafa kannski einna hæstu tekjurnar. Við höfum fundið fyrir því áður.
    Virðulegi forseti. Það er ekki ástæða til þess að ræða þetta frekar. Hér voru miklar umræður í morgun. Ég óska eftir því að þessu máli verði vísað til efh.- og viðskn. og verði fljótlega tekið til síðari umr. Ég vil aðeins í lokin, svo að ég tefji nú menn ekki of mikið, vara við því að það verði einhver frestun á þeirri dagsetningu sem hér er óskað eftir vegna þess að ég tel að á haustþingi þurfi þessi könnun að liggja fyrir til þess að einmitt á þessu ári geti hið háa Alþingi sett nákvæmari og betri reglur til þess að þarna verði bót á.